Enski boltinn

Frétti það að hann væri dáinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá jarðaför. Myndin tengist ekki fréttinni.
Frá jarðaför. Myndin tengist ekki fréttinni. Vísir/Getty
Fernando LaFuente er knattspyrnumaður sem hefur komist í fréttirnar í vikunni en ekki þó fyrir hæfileika sína inn á knattspyrnuvellinum.

Fernando LaFuente frétti nefnilega af þvi í vikunni að hann væri dáinn og að öll liðin í írsku áhugamannadeildinni Leinster Senior League væru að minnast hans með því að spila með sorgarbönd og hafa mínútuþögn fyrir sína leiki.

Lið hans Ballybrack FC tilkynnti forráðamönnum Leinster Senior deildarinnar að Fernando LaFuente hefði látist í umferðaslysi. Félagið baðst afsökunar þegar hið sanna kom í ljós og deildin hefur sett af stað rannsókn á hvernig svona gat gerst.

„Vinnufélagarnir fóru að senda mér greinar og þá komst ég að því að ég væri dáinn,“ sagði Fernando LaFuente í útvarpsviðtali við RTE Radio á Spáni. LaFuente var einmitt staddur á Spáni þegar fréttir fóru að berast af dauða hans á Írlandi.

LaFuente spilar ekki lengur fyrir Ballybrack þar sem hann fluttist til Spánar.





Írska félagið hafði samband í síðustu viku og lét hann vita af því að það væri frétt um að hann hefði lent í slysi.

„Ég vissi að það væri frétt um mig en ég hélt að hún væri bara um að ég hefði fótbrotnað eða eitthvað svoleiðis,“ sagði Fernando LaFuente.

„Ég var bara heima hjá mér eftir vinnu í gær og var að spila tölvuleiki. Þá létu þeir mig vita að ég væri orðinn frægur,“ sagði LaFuente.

 





„Það hefði verið í lagi ef að þetta hefði bara verið fótbrot. Það skipti mig ekki máli því ég var ekki lengur þarna. Ef ég lenti ekki í vandræðum hverju skipti það þá. Það skrökva allir stundum,“ sagði LaFuente.

„Þetta er samt frekar fyndið fyrir mig því ég hef verið að horfa upp á eigin dauða,“ sagði LaFuente.

Leik Ballybrack á Arklow Town var frestað eftir að félagið lét vita af „dauða“ Fernando LaFuente og félagið gekk líka svo langt að birta frétt um dauða hans í staðarblaðinu þar sem fjölskyldu hans voru sendar samúðarkveðjur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×