Enski boltinn

Everton ekki unnið á Anfield á þessari öld

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hinn þrítugi Coleman vill upplifa sigur á Anfield
Hinn þrítugi Coleman vill upplifa sigur á Anfield
Everton hefur ekki unnið leik á Anfield á þessari öld. Bítlaborgarliðin mætast í grannaslag á heimavelli þeirra rauðu um helgina, Evertonmaðurinn Seamus Coleman segir árangurinn ekki nógu góðan.

„Það er mjög langt síðan við unnum síðast og við þurfum að gefa nýju leikmönnunum og stuðningsmönnunum tækifæri á að finna hvernig það er að vinna svona leiki,“ sagði Coleman í viðtali við Sky Sports.

„Það er auðvelt að koma hingað og segja alla réttu hlutina í viðtali, ég er nokkuð viss um að við höfum gert það síðustu fimm, tíu ár en ekki fylgt því eftir á vellinum.“

„Við þurfum að mæta til leiks á sunnudaginn og láta verkin tala. Þetta er ristastór leikur fyrir borgina okkar og við höfum þurft að taka tapi allt of oft. Það verður farið í nokkrar tæklingar um helgina.“

Everton hefur gengið mjög vel í síðustu leikjum og er í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Sigur á nágrönnunum gæti minnkað muninn upp í fjórða sætið í aðeins þrjú stig.

„Andrúmsloftið innan félagsins er gott, eins og klúbburinn sé á leiðinni upp á við. Aðstaðan á æfingasvæðinu batnar með hverjum deginum. Það næsta er að vinna titil, það er það sem þú vilt sem leikmaður.“

„Það er gott að ná eins hátt upp í deildinni og þú getur, en fyrir félag eins og Everton þá væri frábært að vinna bikarkeppnina. Það væri mjög þýðingarmikið fyrir stuðningsmenninga og fyrir mig persónulega.“

Leikur Liverpool og Everton hefst klukkan 16:00 á sunnudaginn og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×