Fótbolti

Der Spiegel: Bestu lið Evrópu ætla að stofna ofurdeild

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Hvernig verður enska úrvalsdeildin án toppliðanna?
Hvernig verður enska úrvalsdeildin án toppliðanna? vísir/getty
Þýska blaðið Der Spiegel segir bestu félög Evrópu hafa átt leynifundi um stofnun evrópskrar ofurdeildar.

Samkvæmt gögnum sem Der Spiegel hefur komist yfir ætla félögin að yfirgefa sínar deildir og knattspyrnusambönd og stofna nýja deild frá og með 2021.

Það eiga að hafa verið Real Madrid, AC Milan, Arsenal, Barcelona, Bayern München, Juventus og Manchester United sem ræddu saman um stofnun ofurdeildarinnar.

Þessi lið, ásamt Chelsea, Liverpool, Manchester City og PSG myndu vera stofnendur deildarinnar og hafa öruggt sæti í henni næstu 20 árin.

Fimm „gestaliðum“ yrði svo boðin þáttaka í deildinni og það væru Atletico Madrid, Borussia Dortmund, Inter Milan, Marseille og Roma samkvæmt Der Spiegel.

Sky Sports greinir frá því að þeirra heimildarmaður innan Arsenal hafi staðfast neitað því að enska félagið væri viðriðið þessar áætlanir.

Þar segir að háttsettir heimildarmenn innan félagsins telji mikilvægt að Arsenal komi að viðræðum um framtíð fótboltans, bæði innanlands og í Evrópu, en þeir hafi enga vitneskju um nákvæmlega þessi plön. Þá telji Arsenal ensku úrvalsdeildina bestu deild heims.

Forráðamenn Manchester United og Liverpool vilja ekki tjá sig um málið og Sky Sports hefur enn ekki borist svar frá Chelsea.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×