Íslenski boltinn

Miklar breytingar á miðju Stjörnuliðsins | Fyrirliðinn líka á förum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fagnar einum af sjö stóru titlum sínum með Stjörnunni.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fagnar einum af sjö stóru titlum sínum með Stjörnunni. Vísir/Eyþór
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir og Lára Kristín Pedersen hafa báðar spilað lykilhlutverk á miðju Stjörnunnar í Pepsi deild kvenna í fótbolta undanfarin ár en svo verður ekki lengur. Þær eru núna báðar á förum frá félaginu.

Lára Kristín Pedersen hafði áður fengið sig lausa frá Garðabæjarfélaginu og Ásgerður Stefanía staðfestir það í viðtali við Morgunblaðið að hún sé einnig á förum frá félaginu.

Kristján Guðmundsson tók við liði Stjörnunnar á dögunum af Ólafi Þór Guðbjörnssyni og hann þarf nú að setja saman nýja miðju í Garðabænum.

Lára Kristín var kosin besti leikmaður Stjörnunnar á nýloknu tímabili en tilkynnti á dögunum að hún hefði rift samningi sínum við Stjörnuna. Ásgerður Stefanía kom til baka í sumar eftir barnsburðarleyfi sumarið 2017.

Ásgerður Stefanía hefur verið fyrirliði Stjörnunnar þegar hún hefur spilað undanfarin sex tímabil en samningur hennar rann út í október. Ásgerður segist hafa ákveðið að semja ekki aftur við Stjörnuna en hún hefur spilað með Garðarbæjarfélaginu frá 2005.

„Ég get allavega lofað þér því að ég er ekki að fara að leggja skóna á hilluna,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir í viðtali við Morgunblaðið.

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir hefur alls leikið 218 leiki fyrir Stjörnuna í efstu deild og varð leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins í sumar. Ásgerður sló þá met Auðar Skúladóttur.

Nú er bara stóra spurningin hvar þær Ásgerður Stefanía og Lára Kristín spila næsta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×