Erlent

Dómstólar greiða ríkisstjórn Trump tvö þung högg

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump skrifaði undir tilskipun um Keystone XL-olíuleiðsluna þegar á öðrum degi sínum í embætti forseta.
Trump skrifaði undir tilskipun um Keystone XL-olíuleiðsluna þegar á öðrum degi sínum í embætti forseta. Vísir/EPA

Tveir alríkisdómarar gerðu ríkisstjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta afturreka með tvö umdeild mál sem hafa verið ofarlega á baugi undanfarin ár. Annar þeirra staðfesti lögbann við því að DACA-áætlunin sem ver börn fólks sem kom ólöglega til Bandaríkjanna fyrir því að vera vísað úr landi yrði felld úr gildi en hinn setti tímabundið lögbann á framkvæmdir við stóra og umdeilda olíuleiðslu.

Trump tilkynnti að hann ætlaði að afnema DACA-áætlunina sem forveri hans Barack Obama setti á fót í september í fyrra. Neðri dómstig settu hins vegar lögbann á það og skipaði ríkisstjórninni að halda áfram að taka við umsóknum um vernd þar til málið yrði til lykta leitt fyrir dómstólum.

Níundi áfrýjunardómstóll Bandaríkjanna kvað upp úrskurð í gær um að DACA yrði að halda áfram að vera í gildi þar sem líkur væru á því að stefnendur sem halda því fram að afnám áætlunarinnar sé ólöglegt komi til með að vinna málið, að því er segir í frétt CNN.

Dómsmálaráðuneytið hefur þegar beðið Hæstarétt um að taka málið fyrir. Þar eru íhaldsmenn nú með öruggan meirihluta eftir að Trump skipaði Brett Kavanaugh dómara í haust.

Verða að rannsaka neikvæð áhrif olíuleiðslunnar

Alríkisdómstóll í Montana lagði síðan tímabundið lögbann við framkvæmdir við Keystone XL-olíuleiðsluna. Ríkisstjórn Trump hafi ekki réttlætt nægilega ákvörðun sína um að gefa leyfi fyrir leiðslunni.

Keystone XL á að flytja hráolíu sem unnin er úr tjörusandi í Kanada til olíuhreinsistöðva í Texas, tæplega tvö þúsund kílómetra leið.

Eitt fyrsta verk Trump sem forseta var að gefa út forsetatilskipun um að snúa við stefnu Obama um að setja framkvæmdirnar á ís vegna umhverfissjónarmiða.

Washington Post segir að úrskurður dómarans stöðvi framkvæmdirnar ekki varanlega. Ríkisstjórnin þarf nú hins vegar að meta nánar möguleg neikvæð áhrif leiðslunnar, þar á meðal fyrir loftslagsbreytingar, dýr í útrýmingarhættu og menningararf.

Hópar norður-amerískra frumbyggja eru á meðal þeirra sem hafa barist hvað harðast gegn Keystone XL en leiðslan á meðal annars að liggja um jarðir þeirra.


Tengdar fréttir

Obama hafnar Keystone XL olíuleiðslunni

Barack Obama Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann myndi hafna beiðni um lagningu Keystone XL olíuleiðslunnar frá Alberta í Kanada til Nebraska.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.