Enski boltinn

Markvörður þurfti að færa bílinn sinn í miðjum leik | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Edwards hleypur af velli.
Edwards hleypur af velli. mynd/skjáskot
Preston Edwards, markvörður enska utandeildarliðsins Dulwich Hamlet, þurfti að hlaupa út af vellinum í æfingaleik á móti Crystal Palace í gærkvöldi þegar að vallarþulurinn tilkynnti að það ætti að draga burt bílinn hans.

Edwards sagði frá því eftir leikinn að hann var aðeins of seinn til leiks og því þurfti hann að leggja ólöglega. Sky Sports greinir frá.

Vallarþulurinn tilkynnti nokkrum sinnum að færa ætti bílinn hans og reyndi markvörðurinn nokkrum sinnum að biðla til áhorfenda um að koma því til skila að þetta væri bíllinn hans.

Stuðningsmönnunum fannst þetta svo fyndið að þeir byrjuðu að syngja: „Preston, færðu bílinn þinn!“ í staðinn fyrir að hjálpa markverðinum sem þurfti svo að hlaupa út af vellinum þegar að flautað var til hálfleiks og færa bílinn.

Þetta var ekki besta kvöld Edwards á ferlinum því auk þess að lenda í bílavandræðum fékk hann á sig fimm mörk á móti Palace í 5-0 tapi.

Leikurinn var góðgerðarleikur fyrir Dulwich Hamlet og söfnuðust 1.000 pund í gærkvöldi sem fara í að borga leikmönnum liðsins laun.

Markvörðurinn náði að færa bílinn og slapp því við væna sekt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×