Innlent

Landbúnaðarráðherra segir ekki koma til greina að segja upp EES samningnum

Heimir Már Pétursson skrifar

Landbúnaðarráðherra segir ekki koma til greina að segja upp EES-samningnum vegna dóms Hæstaréttar sem staðfestir að bannað sé að hefta innflutning á fersku kjöti frá Evrópusambandsríkjunum. Þegar um þau mál var samið hafi menn vitað að verið væri að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra segir dóm Hæstaréttar í gær ekki þýða að alfarið sé búið að opna fyrir innflutning á fersku kjöti að óbreyttum lögum. Niðurstaðan hafi hins vegar að einhverju leyti verið fyrirsjáanleg.

„Við erum að vinna í málinu. Við höfum verið í viðræðum við Evrópusambandið og leitað leiða til þess meðal annars að búa hugsanlega kerfið okkar undir þessa breytingu. Líka rætt möguleika á að viðhalda því leyfisveitingakerfi sem verið hefur,“ segir Kristján Þór. Það séu ekki komnar niðurstöður í þeim viðræðum.

Leitað sé leiða til að mæta höfuðáherslum Íslendinga um heilbrigði búfjárstofna og heilbrigðiskröfur almennt.

„Þetta er frekar erfitt viðfangs. Það verður bara að játast alveg eins og er. Það var í rauninni samið um þessi efni fyrir rúmum áratug. Frá þeim tíma höfum við sem stjórnvöld verið í óttalegu baxi og kærumálum með þetta alla tíð,“ segir landbúnaðarráðherra.

Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins og fyrrverandi utanríkis- og landbúnaðarráðherra sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að stjórnvöld yrðu að bregðast við og sækja um undanþágur eða endurskoðun á EES samningnum. Ef það tækist ekki komi til greina að segja samningnum upp.

„Ef hagsmunirnir eru metnir það stórir og miklir kæmi það að sjálfsögðu til greina. En þetta þarf allt að vega og meta og það þarf að fara mjög vandlega í gegnum þetta. Ekki kasta bara einhverju fram. Það þarf að fara mjög vandlega yfir þetta,“ sagði Gunnar Bragi meðal annars.

Landbúnaðarráðherra segir EES samninginn góðan milliríkjasamning. „Ég man ekki eftir því að þingflokksformaður Miðflokksins hafi rætt þann möguleika að segja upp EES samningnum þegar hann gegndi starfi utanríkisráðherra. Ég er ekki á þeim stað. Það kemur ekki til greina í mínum huga að segja upp EES samningnum bara si svona. Það er ekki inni í myndinni,“ segir ráðherra. 

„Þegar um matvælalöggjöfina var samiðáárunum 2005 til 2007 var það bara viðurkennt að menn voru að fórna minni hagsmunum fyrir meiri áþeim tíma. Þá var það meira að segja orðað meðþeim hætti,“ segir Kristján Þór Júlíusson. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.