Enski boltinn

Sjáðu markið og stoðsendinguna hjá sjóðheitum Jóhanni Berg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann Berg horfir á eftir boltanum í netið.
Jóhann Berg horfir á eftir boltanum í netið. vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson var allt í öllu í liði Burnley sem vann Cardiff, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í gær en Jóhann skoraði fyrra mark liðsins og lagði upp sigurmarkið.

Jóhann Berg skoraði fyrra markið með glæsilegum skalla þar sem að hann stökk miklu hærra en varnarmaður Cardiff og stangaði boltann í nær hornið en það síðara lagði hann upp á kollinn á Sam Vokes.

Þetta var fyrsta mark íslenska landsliðsinsmannsins á leiktíðinni í ensku úrvalsdeildinni en hann er nú búinn að leggja upp þrjú mörk fyrir Burnley-liðið sem er komið á skrið eftir slaka byrjun og búið að vinna tvo leiki í röð.

Frá því að síðasta leiktíð hófst hefur enginn í liði Burnley komið að fleiri mörkum með beinum hætti en Jóhann Berg en hann er nú búinn að skora þrjú mörk og gefa tíu stoðsendingar á þeim tíma og þannig koma að þrettán mörkum með beinum hætti.

Það eru frábær tíðindi fyrir íslenska landsliðið að sjá Jóhann ekki bara í standi heldur svona sjóðheitan því hann var einn af lykilmönnunum sem Ísland var án í fyrstu leikjum Þjóðadeildarinnar sem töpuðust illa gegn Sviss og Belgíu.

Markið og stoðsendinguna má sjá hér að neðan.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×