Innlent

Óttast fyrirvaraleysi í erlendum fjölmiðlum um „áróðursmeistarann“ og náinn vin Davíðs

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. vísir/vilhelm

Þingmaður Samfylkingarinnar óttast að skýrsla Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar um efnahagshrunið á Íslandi rýri traust Háskóla Íslands. Þingmaður Viðreisnar segir fátt nýtt koma fram í skýrslunni.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var gestur í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær ásamt þeim Jóni Steindóri Valdimarssyni, þingmanni Viðreisnar og Teiti Birni Einarssyni, varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Skýrsla Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, prófessors við Háskóla Íslands, um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins sem skrifuð var fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið var meðal þess sem bar á góma.

„Það er enginn fyrirvari um að höfundur skýrslunnar hefur verið einn aðal áróðursmeistari Sjálfstæðisflokksins um áratuga skeið, náinn vinur aðalleikara í íslenskum stjórnmálum um áratuga skeið. Mér finnst ekkert að því að Hannes, sem er lipur penni og allt það, skrifi skýrslu. En ég hef áhyggjur af trúverðugleika okkar og ég hef mjög miklar áhyggjur af trúverðugleika háskólans,“ sagði Helga Vala.

Teitur Björn kvaðst ósammála því að skýrslan rýri með einhverjum hætti traust Háskólans.

„Mér sýnist að þeir sem hafa tjáð sig um skýrsluna séu mest að fetta fingur út í hver sé höfundurinn og draga upp ýmislegt sem að eins og Helga Vala var að segja að sé komið meira að segja á þann stað að rýra einhvern veginn orðstýr Háskóla Íslands. Mér þykir það ansi stór orð og hún hlýtur að útskýra það einhvern veginn nánar,“ sagði Teitur Björn.

Að mati Jóns Steindórs kemur fátt nýtt fram í skýrslunni.

„Mér finnst eiginlega furðulega lítið í niðurstöðunum sem að er nýtt og það er nánast ekkert nýtt í þessum niðurstöðum og mér finnst þetta, ég verð að segja það, mér finnst þessi skýrslugerð með mestu ólíkindum,“ sagði Jón Steindór.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.