Erlent

Slaka á innflytjendalöggjöf vegna skorts á vinnuafli

Samúel Karl Ólason skrifar
Ráðherrar ríkisstjórnar Þýskalands eftir blaðamannafund í dag.
Ráðherrar ríkisstjórnar Þýskalands eftir blaðamannafund í dag. EPA/Clemens Bilan
Yfirvöld í Þýskalandi ætla að slaka á innflytjendalöggjöf landsins vegna mikillar vöntunar á verkafólki þar í landi. Meðal annars fela breytingarnar í sér að farandfólki sem aðlagast samfélaginu og er í vinnu verður gert kleift að halda til í Þýskalandi.

Þetta var niðurstaða stífra fundarhalda stjórnarflokka Þýskalands á dögunum en breytingarnar þurfa að komast í gegnum þingið áður en þær taka gildi.

Samkvæmt AFP fréttaveitunni var ráðherrum ríkisstjórnar Þýskalands mikið í mun að aðskilja verkafólk og hælisleitendur þegar breytingarnar voru tilkynntar. Rúmlega milljón manns hafa sótt um hæli í Þýskalandi frá 2015 og hefur það leitt til deilna í landinu og málefni innflytjenda eru orðin verulega umdeild.



Við kynninguna var ítrekað að ekki væri verið að gera fólki, sem hefur sótt um hæli og verið hafnað, kleift að vera áfram í Þýskalandi. Þess í stað væri um að ræða raunsæja lausn fyrir farandfólk sem hefur verið í Þýskalandi til langs tíma. Ekki er hægt að senda aftur til heimalands þess vegna hættu sem þau standa þar frammi fyrir.

Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki í Þýskalandi og forsvarsmenn fyrirtækja í landinu, sem státar af stærsta efnahagi Evrópu, hafa lengi kvartað yfir mikilli þörf á verkafólki. Þeir segja þörfina ógna hagvexti. Petar Altmaier, efnahagsráðherra Þýskalands, segir að breytingarnar á innflytjendalöggjöfinni muni sérstaklega hjálpa smærri og meðalstærri fyrirtækjum sem eiga erfitt með að keppa um starfsmenn við stærri fyrirtæki.

Vandinn snýr hvað sérstaklega að störfum í vísindum, tölvukerfum og tækni. Hæfu starfsfólki utan Evrópusvæðisins verður hleypt inn í Þýskaland, tímabundið, en þau verða að geta talað þýsku.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×