Erlent

Brasilískir bændur vilja Bolsonaro í forsetastólinn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jair Bolsonaro á fjölda stuðningsmanna í Brasilíu.
Jair Bolsonaro á fjölda stuðningsmanna í Brasilíu. vísir/epa
Þrýstihópur brasilískra bænda lýsti í gær yfir stuðningi við framboð Jairs Bolsonaro til forseta. Í tilkynningu frá þrýstihópnum sagði að hann myndi sameinast um að tryggja að „spilltir frambjóðendur“ kæmust ekki til valda. Samkvæmt Reuters eru áhrif hópsins töluverð þar í landi.

Hinn mjög svo umdeildi og íhaldssami Bolsonaro mælist með tíu prósentustiga forskot á sinn helsta keppinaut samkvæmt könnun sem Ibope birti í gær. 31 prósent sagðist mundu kjósa Bolsonaro í fyrstu umferð kosninganna en 21 prósent hyggst kjósa Fernando Haddad, frambjóðanda Verkamannaflokksins.

Fái enginn frambjóðandi meirihluta atkvæða mun þurfa að kjósa aftur á milli tveggja efstu. Samkvæmt könnun Ibope myndu Bolsonaro og Haddad báðir fá 42 prósenta fylgi svo ljóst er að önnur umferð kosninga gæti orðið afar spennandi. Í síðustu könnun mældist Bolsonaro með 38 prósent gegn 42 prósentum Haddads og er því að sækja á.

Bolsonaro hefur í gegnum tíðina vakið athygli fyrir umdeildar skoðanir. Árið 2015 sagði hann að konur og karlar ættu ekki að fá jöfn laun vegna þess að konur verða óléttar. Þá hefur hann verið kenndur við andúð á samkynhneigðum. Í viðtali við Playboy árið 2011 sagði hann að hann væri ófær um að elska samkynhneigðan son og bætti við að hann myndi frekar vilja að sonur sinn léti lífið í slysi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×