Enski boltinn

Carragher: Salah er ekki að spila illa

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Mohamed Salah þarf að nýta færin.
Mohamed Salah þarf að nýta færin. vísir/getty
Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, fór hreinlega á kostum á síðustu leiktíð en hann hefur ekki byrjað alveg jafnvel á nýju tímabili. Egyptinn er búinn að skora þrjú mörk í fyrstu sjö umferðunum en Sergio Agüero og Aleksandar Mitrovic, leikmaður Fulham, eru markahæstir með fimm mörk.

Salah ætti þó í raun að vera búinn að skora meira en þeir félagarnir miðað við nýjustu tölfræðina í bransanum sem kallast xG eða Expected Goals. Þar er tekið mið af færunum sem leikmenn fá eða skapa sér.

Salah ætti að vera búinn að skora 5,14 mörk á þessari leiktíð og er efstur í þeirri tölfræði fyrir ofan Sergio Agüero. Hann er í raun sá eini sem á að vera búinn að skora fleiri en fimm mörk eins furðulega og það hljómar.

Jamie Carragher, fyrrverandi miðvörður Liverpool og einn helsti sérfræðingur Sky Sports um ensku úrvalsdeildina, fór yfir byrjun leiktíðarinnar hjá Salah sem hann vonast til að sé ekki að stressa sig á þessu því byrjunin er ekkert alslæm.

„Hann er ekki að spila frábærlega en hann er heldur ekki að spila illa. Það er gert aðeins of mikið úr hvernig hann er að spila. Salah hefur bara skorað einu marki minna en á síðustu leiktíð,“ segir Carragher.

„Salah þarf ekki að skora yfir 40 mörk í vetur til að teljast ekki hafa átt slæma leiktíð. Ian Rush er besti markaskorari í sögu Liverpool. Hann skoraði 47 mörk eina leiktíðina en það gerði hann aldrei aftur. Hann skoraði 25-30 mörk á tímabili og ef Salah gerir það í ár telst það sem frábær leiktíð,“ segir Jamie Carragher.

Umræðuna má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×