Enski boltinn

Firmino: Ég óttaðist að sjá aldrei aftur með auganu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óhugnalegt atvik.
Óhugnalegt atvik. vísir/getty
Roberto Firmino, framherji Liverpool, óttaðist að verða blindur á öðru auga eftir að Jan Verthongen, varnarmaður Tottenham, tróð puttanum óvart langt inn í auga Brassans í leik liðanna í september.

Firmino var færður á sjúkrahús eftir leikinn en fékk fljótlega að fara heim. Liverpool vann leikinn, 2-1, og skoraði Firmino það sem að reyndist vera sigurmarkið.

„Ég óttaðist að blindast á öðru auganu og sjá aldrei með því aftur. Ég þakka Guði fyrir að sú varð ekki raunin og ég verð betri frá degi til dags,“ segir Firmino í viðtali við Sky Sports.

„Að sjálfsögðu er að ég að taka lyfin mín og passa upp á augað. Augun eru mikilvæg fyrir okkur atvinnufótboltamennina. Ég þakka bara Guði fyrir að það sé í lagi með mig.“

Þetta fór allt saman miklu betur en á horfðist þegar myndir fóru að sjást af Verthongen með puttann á bólakafi í auga Firmino en hann var mættur nokkrum dögum síðar til að skora sigurmarkið í 3-2 sigri gegn PSG í Meistaradeildinni.

„Ég sá allt í móðu eftir atvikið en það lagaðist smám saman eftir að ég fékk verkjalyf hjá lækninum. Ég sá samt ekkert út um vinstra augað þegar að atvikið átti sér stað. Mér líður samt mun betur núna. Augað er svolítið rautt en vonandi lagast þetta með tíð og tíma,“ segir Roberto Firmino.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×