Innlent

Fyrirkomulag varðandi göngugötur í miðborginni mótað í vetur

Atli Ísleifsson skrifar
Vegfarendur hafa leyst bíla af hólmi á Laugavegi síðustu mánuði.
Vegfarendur hafa leyst bíla af hólmi á Laugavegi síðustu mánuði. Mynd/Reykjavíkurborg
Tillaga um varanlegar göngugötur í miðborg Reykjavíkur verður mótuð í vetur og liggja fyrir í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Tímabili göngugatna miðborginni lýkur um næstu mánaðarmót og verður um leið opnað aftur fyrir umferð bifreiða.

Í tilkynningunni segir að umhverfis- og skipulagssviði borgarinnar hafi nýlega verið falið af borgarráði að útfæra tillögur að göngugötum til framtíðar á völdum svæðum í miðborginni. „Sviðinu var einnig falið að útfæra endurhönnun göngusvæða með tilliti til öryggis og vellíðunar gangandi vegfarenda og vandaðrar borgarhönnunar. Algild hönnun með aðgengi fyrir alla verður höfð að leiðarljósi við útfærsluna í samráði við notendur og viðeigandi hagsmunasamtök.

Starfsfólk sviðsins hefur hafist handa við þetta verkefni. Tímaáætlun er í mótun og einnig uppsetning upplýsingasíðu um verkefnið. Í samráðsferli gefst hagsmunaaðilum kostur á að taka þátt í hönnunarferlinu. Hönnunin mun taka mið af bættu aðgengi inn í verslanir þar sem því verður við komið. Samhliða verður unnið deiliskipulag fyrir þær göngugötur sem verða til framtíðar. Gert er ráð fyrir að ferlið standi yfir til vors. Boðað verður til funda um verkefnið til að safna hugmyndum um útfærslur.

Aðlaðandi ásýnd

Göturnar fá nýja og aðlaðandi ásýnd með þessari endurhönnun þar sem gert er ráð fyrir gróðri, dvalarsvæðum, lýsingu og betrumbættu yfirborði. Tekið verður  tillit til vörulosunar og annarra þátta. Þá verður hugað að útiveitinga- og markaðssvæði á þessum götum, sögulegum tengingum og ýmsu öðru sem göngugöturnar bjóða upp á,“ segir í tilkynningunni.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.