Erlent

Aðstoðarmenn May sagðir undirbúa kosningar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Blaðamaður Times vitnar í símtal tveggja aðstoðarmanna forsætisráðherra þar sem annar þeirra er sagður hafa talað um kosningar í nóvember.
Blaðamaður Times vitnar í símtal tveggja aðstoðarmanna forsætisráðherra þar sem annar þeirra er sagður hafa talað um kosningar í nóvember.
Aðstoðarmenn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, eru þegar byrjaðir að skipuleggja kosningar í nóvember með það fyrir augum að styrkja stöðuna í viðræðum um Brexit og tryggja áframhaldandi völd forsætisráðherra eftir að leiðtogar Evrópusambandsins sópuðu Brexit-tillögum forsætisráðherrans af borðinu í síðustu viku.

Breska dagblaðið The Times greindi frá leynilegum fyrirætlunum forsætisráðherrans, ráðgjafa og aðstoðarmanna hennar í sunnudagsútgáfu blaðsins.

Blaðamaður Times vitnar í símtal tveggja aðstoðarmanna forsætisráðherra þar sem annar þeirra er sagður hafa talað um kosningar í nóvember.

„Hvað ertu að gera í nóvember? Ég held nefnilega að við þurfum að boða til kosninga.“ Blaðamaður vitnar með þessum hætti í aðstoðarmann May sem ekki er nefndur á nafn.

Líklegt að Theresa May segi af sér næsta sumar

Staða Theresu May er verulega löskuð eftir slæman árangur í viðræðum um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu en nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn hennar hafa sagt af sér vegna Brexit-áætlunar hennar. 



Times fullyrðir að líklegt sé að hún muni segja af sér embætti næsta sumar til að koma í veg fyrir að fleiri ráðherrar í hennar ríkisstjórn fari að fordæmi Borisar Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra og David Davis, fyrrverandi ráðherra útgöngumála. Johnson og Davis sögðu af sér vegna „útþynntrar útgáfu af Brexit“.

Theresa May hefur enn sem komið er ekki brugðist við fréttum dagsins en í grein Times er haft eftir nánum samstarfsmanni forsætisráðherra að ekkert sé hæft í þeirri staðhæfingu að verið sé að undirbúa kosningar í Bretlandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×