Enski boltinn

Salah, Mané og Firmino ekki fæddir þegar Liverpool byrjaði síðast svona vel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Firmino og Mohamed Salah.
Roberto Firmino og Mohamed Salah. Vísir/Getty

Liverpool er á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir fjórar umferðir með fullt hús og markatöluna 9-1. Þetta er besta byrjun félagsins síðan haustið 1990.

Liverpool hefur aðeins fjórum sinnum byrjað tímabilið í efstu deild enska fótboltans með fjórum sigrum í fyrstu fjórum leikjunum.

Síðast gerðist það fyrir 28 árum síðar eða þegar Liverpool varði enska meistaratitilinn síðast. Öll þriggja manna framlína Liverpool-liðsins var þá ekki komin í heiminn.

Roberto Firmino fæddist rúmu ári síðar og þarna voru ennþá nítján mánuðir í fæðingu Sadio Mané og meira en tuttugu mánuður í að Mohamed Salah fæddist í Egyptalandi.

Meðal leikmanna Liverpool í dag sem voru komnir í heiminn þetta ágæta haust fyrir 28 árum voru þeir James Milner (fjögurra ára) og Jordan Henderson (þriggja mánaða). Daniel Sturridge og Dejan Lovren voru líka báðir búnir að halda upp á eins árs afmælið sitt.

Þetta er eina skiptið frá árinu 1980 sem Liverpool hefur verið með fullt hús eftir fjóra leiki en þessi draumabyrjun í ágúst og september 1990 skilaði Liverpool liðinu reyndar ekki titlinum.

Það fylgir reyndar sögunni að aðeins í eitt skiptið af fjórum skiptum sem Liverpool hefur byrjað svona vel hefur liðið náð að vinna enska titilinn vorið eftir. Það var tímabilið 1978 til 1979.Tímabilið 1990-91 vann Liverpool ekki bara fjóra fyrstu leiki sína heldur var liðið ennþá með fullt hús eftir átta umferðir. Liverpool var þarna ríkjandi meistari og því líklegt til afreka á þessu tímabili.

Liverpool varð á endanum að sætta sig við annað sætið á eftir Arsenal sem fékk sjö stigum meira. Arsenal vann meðal annars báða innbyrðisleiki liðanna, fyrst 3-0 á Highbury í byrjun desember og svo 1-0 á Anfield í mars.

Titillinn rann endanlega Liverpool úr greipum þegar liðið tapaði tveimur fyrstu leikjum sínum í maí sem voru á móti Chelsea og Nottingham Forest.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.