Erlent

Loftárásir hafnar í Idlib

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjöldi hópa uppreisnar- og vígamanna halda til í Idlib og hafa margir þessara hópa verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök.
Fjöldi hópa uppreisnar- og vígamanna halda til í Idlib og hafa margir þessara hópa verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök.

Yfirvöld Rússlands segja stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, undirbúa árás á Idlib. Markmið þeirra sé að „leysa hryðjuverkavanda“ héraðsins sem talsmaður Vladimir Pútín, forseta Rússlands, lýsti sem „greni hryðjuverkamanna“. Fregnir berast nú af því að umfangsmiklar loftárásir séu hafnar í Sýrlandi.

Á undanförnum vikum hafa Assad-liðar, það er stjórnarherinn og aðrir hópar sem berjast fyrir Bashar al Assad, forseta Sýrlands, safnast saman í massavís við víglínurnar í Idlib.

Fjöldi hópa uppreisnar- og vígamanna halda til í Idlib og hafa margir þessara hópa verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök. Öflugasti hópurinn á svæðinu, Hayat Tahrir al-Sham, tengist al-Qaeda. Hins vegar er umtalsverður fjöldi almennra borgara í Idlib og hafa margir þeirra flúið átök annars staðar í Sýrlandi. Um þrjár milljónir manna halda til í héraðinu.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varaði við því í gær að gera umfangsmikla árás á héraðið, þar sem slíkt gæti komið verulega niður á almennum borgurum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sömuleiðis biðlað til Assad-liða um að halda aftur af sér og finna aðrar lausnir.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 800 þúsund manns gætu endað á vergangi á nýjan leik og það gæti lamað hjálparstarf á svæðinu. Þá er ekki vitað hvert þetta fólk gæti farið þar sem Tyrkir hafa lokað landamærum sínum.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.