Erlent

Loftárásir hafnar í Idlib

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjöldi hópa uppreisnar- og vígamanna halda til í Idlib og hafa margir þessara hópa verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök.
Fjöldi hópa uppreisnar- og vígamanna halda til í Idlib og hafa margir þessara hópa verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök.
Yfirvöld Rússlands segja stjórnarher Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, undirbúa árás á Idlib. Markmið þeirra sé að „leysa hryðjuverkavanda“ héraðsins sem talsmaður Vladimir Pútín, forseta Rússlands, lýsti sem „greni hryðjuverkamanna“. Fregnir berast nú af því að umfangsmiklar loftárásir séu hafnar í Sýrlandi.

Á undanförnum vikum hafa Assad-liðar, það er stjórnarherinn og aðrir hópar sem berjast fyrir Bashar al Assad, forseta Sýrlands, safnast saman í massavís við víglínurnar í Idlib.

Fjöldi hópa uppreisnar- og vígamanna halda til í Idlib og hafa margir þessara hópa verið skilgreindir sem hryðjuverkasamtök. Öflugasti hópurinn á svæðinu, Hayat Tahrir al-Sham, tengist al-Qaeda. Hins vegar er umtalsverður fjöldi almennra borgara í Idlib og hafa margir þeirra flúið átök annars staðar í Sýrlandi. Um þrjár milljónir manna halda til í héraðinu.



Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, varaði við því í gær að gera umfangsmikla árás á héraðið, þar sem slíkt gæti komið verulega niður á almennum borgurum. Sameinuðu þjóðirnar hafa sömuleiðis biðlað til Assad-liða um að halda aftur af sér og finna aðrar lausnir.

Sameinuðu þjóðirnar áætla að um 800 þúsund manns gætu endað á vergangi á nýjan leik og það gæti lamað hjálparstarf á svæðinu. Þá er ekki vitað hvert þetta fólk gæti farið þar sem Tyrkir hafa lokað landamærum sínum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×