Fótbolti

Samfélagsrýninum Elmari finnst hann ekki vera umdeildur

Tómas Þór Þórðarson í St. Gallen skrifar
Theodór Elmar Bjarnason er klár í slaginn innan sem utan vallar.
Theodór Elmar Bjarnason er klár í slaginn innan sem utan vallar. vísir/Arnar halldórsson
Theodór Elmar Bjarnason var kallaður inn í landsliðshópinn vegna meiðsla og er búinn að vera að æfa með strákunum okkar í Austurríki og Sviss fyrir leikinn á móti Svisslendingum í Þjóðadeildinni á morgun.

Elmar hefur lengi verið hluti af hópnum og stóð sig frábærlega á EM 2016 og í fyrstu leikjunum eftir Evrópumótið en datt síðan úr hópnum og fór ekki með á HM í Rússlandi í sumar.

Vesturbæingurinn, sem spilar í Tyrklandi, hefur eiginlega vakið meiri athygli utan vallar undanfarin misseri en hann hefur verið duglegur að opinbera sínar skoðanir á hinum og þesssum málefnum á Twitter.

Það eru ekkert alltaf allir sammála Elmari og hafa fjölmiðlar gert sér mat úr skoðunum hans. Hann bakkar sjaldnast með sínar skoðanir, stendur frekar fast á þeim og er klár í hvaða umræðu sem er á samfélagsmiðlinum.

Elmar brosti og hló aðeins þegar að Vísir spurði hann út í þessa hlið á honum sem samfélagsrýnir á hóteli landsliðsins í St. Gallen í gær.

„Ég hef gaman að því að því að tala við fólk sem hefur misjafnar skoðanir. Ég hef gaman að því þegar að fólk er gjörsamlega á móti mér og reynir að komast til botns í því hvað er það sem skilur okkur að,“ segir Elmar og gefur lítið fyrir það að hann kallist umdeildur í dag.

„Sjálfum finnst mér ég ekki vera neitt umdeildur en flest allt í dag virðist vera umdeilt,“ segir hann.

Miðjumaðurinn knái er alltaf til taks fyrir landsliðið og einnig í góða umræðu á Twitter ef einhverjir eru ósammála eða jafnvel sammála hans skoðunum.

„Ég er alltaf tilbúinn að taka umræðuna og tek því fagnandi. Ég er alltaf klár innan sem utan vallar. Maður þarf að sýna smá lit,“ segir Theodór Elmar Bjarnason.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×