Enski boltinn

Lucas Moura bestur í ágúst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lucas Moura fagnar á Old Trafford.
Lucas Moura fagnar á Old Trafford. Vísir/Getty

Tottenham leikmaðurinn Lucas Moura var kosinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar í ágúst en hann stimplaði sig heldur betur inn í Tottenham liðið í mánuðinum.

Lucas Moura skoraði þrjú mörk í þremur leikjum þar á meðal tvö mörk í sigri á Manchester United á Old Trafford.

Þeir sem kusu var hópur sérfræðinga, fyrirliðar liðanna í ensku úrvalsdeildinni og stuðningsmenn í gegnum netkosningu á heimasíðu ensku úrvalsdeildarinnar.Tottenham vann alla þrjá leiki sína í mánuðinum en þeir voru á móti Newcastle United, Fulham og Manchester United.

„Það er erfitt að útskýra hvernig mér líður. Ég er ánægður því ég veit að það er ekki auðvelt að vinna þessi verðlaun,“ sagði Lucas Moura í viðtali á heimasíðu ensku úrvalsdeildarinnar.

Þetta er í 22. skipti sem Tottenham leikmaður er kosinn besti leikmaður mánaðarins og í fjórða sinn sem Brasilíumaður vinnur þau.

Juninho, Edu og David Luiz voru fyrir þetta einu Brasilíumennirnir sem höfðu hlotið þessi verðlaun.

Leikmennirnir sem voru tilnefndir ásamt Lucas Moura voru þeir Marcos Alonso hjá Chelsea, Neil Etheridge hjá Cardiff City, Sadio Mane hjá Liverpool, Benjamin Mendy hjá Manchester City, Roberto Pereyra hjá Watford og Virgil van Dijk hjá Liverpool.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.