Fótbolti

Harpa líklega ekki með gegn Þýskalandi

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Markahrókurinn Harpa býr sig undir það versta á meðan hún bíður eftir að komast í myndatöku á hné
Markahrókurinn Harpa býr sig undir það versta á meðan hún bíður eftir að komast í myndatöku á hné Vísir/Getty

Harpa Þorsteinsdóttir verður ekki með íslenska landsliðinu í leikjunum mikilvægu gegn Þýskalandi og Tékklandi í byrjun september. Harpa meiddist á hné í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á föstudag.

Bera þurfti Hörpu af velli í seinni hálfleik leiks Stjörnunnar og Breiðablik á Laugardalsvelli á föstudag. Blikar unnu leikinn 2-1 og eru bikarmeistarar 2018.

Það var strax auðsjáanlegt að meiðsli Hörpu voru alvarleg. Þjálfari Stjörnunnar, Ólafur Þór Guðbjörnsson, sagði eftir leikinn að það væri „ömurlegt í þessum leik að Harpa skyldi meiðast svona og ég vona að þetta sé ekki það sem allir séu að hugsa, að hnéð á henni hafi farið.“'

Vísir tók stöðuna á Hörpu í dag og sagðist hún í raun ekkert geta sagt til um alvarleika málsins. Hún sé að bíða eftir því að komast í myndatöku á hnénu, bólgur þurfi að hjaðna aðeins áður en hægt sé að mynda það.

Hins vegar sagði Harpa að hver sem niðurstaðan verði í myndatökunni þá sé ljóst að hún sé ekki að fara að spila fótbolta á næstunni, nema að til kraftaverks komi.

Stjarnan á fimm leiki eftir í Pepsi deild kvenna og þó það sé enn tölfræðilegur möguleiki á toppsætinu er Stjarnan í raun úr leik í toppbaráttunni, 10 stigum á eftir Þór/KA.

Íslenska landsliðið mætir Þýskalandi og Tékklandi á Laugardalsvelli í byrjun september þar sem Ísland getur tryggt sig á lokakeppni HM í fyrsta skipti. Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari, tilkynnir leikmannahópinn fyrir þann leik í hádeginu og verður Vísir með beina textalýsingu frá fundinum í Laugardalnum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.