Erlent

Sneri brottfluttum mæðgum aftur til Bandaríkjanna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mikið hefur verið rætt og ritað um málefni innflytjenda og hælisleitenda í Bandaríkjunum á síðustu mánuðum.
Mikið hefur verið rætt og ritað um málefni innflytjenda og hælisleitenda í Bandaríkjunum á síðustu mánuðum. vísir/getty
Alríkisdómari krafðist þess að flugvél, sem flutti móður og dóttur hennar frá Bandaríkjunum, yrði snúið við snarasta. Konurnar hafi verið reknar úr landi áður en umsókn þeirra um hæli í Bandaríkjunum hafði verið til lykta leidd.

Konurnar eru sagðar hafa flúið til Bandaríkjanna frá El Salvador undan „gríðarlegu kynferðisofbeldi og gengjaátökum,“ eins og það er orðað á vef breska ríkisútvarpsins. Með harðari innflytjendastefnu vestanhafs, sem innleidd var í júní síðastliðnum, geta þolendur heimilis- og gengjaofbeldis hins vegar ekki sótt um hæli á þeim forsendum.

Mæðgurnar hafi því fengið neitun við hælisumsókn sinni sem þær svo áfrýjuðu. Konurnar voru hins vegar sendar aftur til El Salvador í gær - áður en búið var að kveða upp úrskurð um lögmæti áfrýjunarinnar. Haft er eftir lögmanni kvennanna að það sé forkastanlegt að fólk sé flutt úr landi meðan mál þeirra eru enn rekin fyrir bandarískum dómstólum. Hann krafðist þess að konunum yrði flogið aftur til Bandaríkjanna tafarlaust og á það féllst dómari í Washington.

Dómarinn setti sig í samband við heimavarnarráðuneytið sem varð við kröfunni. Konurnar eru sagðar hafa verið nýlentar í El Salvador þegar boðin bárust um að vélinni skyldi snúið aftur. Þær hafi ekki einu sinni yfirgefið flugvélina. Mæðgurnar eru nú sagðar vera í Texas þar sem þær bíða eftir því að úrskurðað verði í máli þeirra.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×