Fótbolti

Tvennt sem gerðist aldrei hjá Zidane gerðist strax í fyrsta leik Lopetegui

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, gengur framhjá bikarnum í gær. Það hafði hann ekki þurft að gera áður sem leikmaður Real Madrid.
Sergio Ramos, fyrirliði Real Madrid, gengur framhjá bikarnum í gær. Það hafði hann ekki þurft að gera áður sem leikmaður Real Madrid. Vísir/Getty

Það er óhætt að segja að Julen Lopetegui hafi ekki byrjað vel sem þjálfari Real Madrid því liðið tapaði 4-2 á móti Atletico Madrid í Ofurbikar UEFA í gærkvöldi.

Julen Lopetegui tók við liði Real Madrid af Zinedine Zidane sem vann níu titla með Real-liðinu á aðeins tveimur og hálfu tímabili.

Tvennt sem kom aldrei fyrir undir stjórn Zidane gerðist í fyrsta keppnisleik liðsins undir stjórn Julen Lopetegui.

Real Madrid tapaði þarna sínum fyrsta úrslitaleik í átján ár. Liðið spilaði átta úrslitaleiki undir stjórn Zinedine Zidane og vann þá alla þar af voru þrír úrslitaleikir í Meistaradeild Evrópu.

Real Madrid var einnig búið að vinna Ofurbikar Evrópu tvö undanfarin ár en í báðum tilfellum var Zinedine Zidane þjálfari liðsins.  
Það var ekki bara að Real Madrid tapaði þessum leik heldur hvernig liðið tapaði honum. Leikmönnum Atletico Madrid tókst nefnilega að skora fjórum sinnum hjá Real-liðinu í leiknum.

Zinedine Zidane stjórnaði Real Madrid frá 4. janúar 2016 til 31. maí 2018 og Real-liðið fékk aldrei á sig fjögur mörk í þeim 149 leikjum sem liðið spilaði undir stjórn Frakkans.
Svo má ekki gleyma að Real Madrid var þarna að missa tökin á nágrönnum sínum í Atletico Madrid en Real Madrid hafði unnið alla úrslitaleiki liðanna undanfarin ár.

Það er því ekkert skrýtið að spænska stórblaðið El Pais héldi því fram að Julen Lopetegui hafi ekki getað byrjað verr í sínum fyrsta opinbera keppnisleik sem þjálfari Real Madrid.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.