Hamrén hefur verið viðriðinn þjálfun síðan 1994 og unnið til titla með félagsliðum á Norðurlöndunum. Hann sagði þetta starf, að þjálfa íslenska karlalandsliðið, líklega vera hans stærstu áskorun á ferlinum.
Svíinn gerði samning við KSÍ til tveggja ára með möguleika á framlengingu til tveggja ára til viðbótar. Honum til aðstoðar verður Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins.
Eftir að Heimir Hallgrímsson tilkynnti um að hann myndi láta af störfum voru yfir þrjátíu nöfn sem komu inn á borð KSÍ. Sá listi var minnkaður niður í fimm nöfn áður en Hamrén var valinn. Eftir að Hamrén var valinn rúllaði boltinn hratt og aðeins eru um tvær vikur síðan KSÍ hafði fyrst samband við Svíann.
Fyrstu verkefni nýs þjálfara eru í september þegar Ísland mætir Sviss og Belgíu í Þjóðadeildinni, fyrsti leikurinn 8. september í Sviss.
Vísir var með beina útsendingu frá blaðamannafundi KSÍ í Laugardalnum sem sjá má hér að neðan.