Erlent

Sautján fórust þegar hjólabátur sökk í Bandaríkjunum

Birgir Olgeirsson skrifar
Ekki vitað hvort farþegar voru í björgunarvestum.
Ekki vitað hvort farþegar voru í björgunarvestum. Vísir/EPA
Sautján drukknuðu þegar hjólabátur sökk í Missouri í Bandaríkjunum fyrr í dag. 31 farþegi var í fleyinu þegar því hvolfdi á Table Rock-vatni, sem er vinsæll ferðamannastaður nærri bænum Branson.

Skipstjórinn bjargaðist en stýrimaðurinn lést.

Þeir sem létust í þessu slysi voru á aldrinum eins árs til 70 ára.

Fjölmiðlar ytra segja ekki ljóst hvort að farþegarnir hefðu verið í björgunarvestum og hvort gluggar bátsins hefðu verið lokaðir.

Slysið átti sér stað þegar miklir stormar hafa geisað í miðvesturríki Bandaríkjanna. Vindhraði náði tæplega 29 metrum á sekúndu þegar slysið átti sér stað. Nokkur myndbönd náðust skömmu áður en harmleikurinn átti sér stað en þar sáust tveir bátar reyna að sigla í kröppum sjó. Annar þeirra náði í land á meðan hinn lenti í vandræðum og hvolfdi.

Forstjóri fyrirtækisins sem á bátinn segir hann ekki hafa átt neitt erindi út á vatnið í dag.

Um er að ræða hjólabát sem er hægt að aka á landi og sigla á vatni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×