Fótbolti

Enskur blaðamaður skilur ekkert í upphitunarleik enska fótboltalandsliðsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane með gúmmí-kjúklinginn á æfingunni.
Harry Kane með gúmmí-kjúklinginn á æfingunni. Vísir/Getty
Fyrir þá sem hafa horft á þann hluta fótboltaæfinga landsliða sem fjölmiðlamenn hafa oftast aðgengi að þá er upphitun leikmanna oftast klassísk samsetning af hlaupum og öðrum teygju- og liðkunaræfingum. En ekki hjá enska landsliðinu.

Bryce Cavanagh, styrktarþjálfari enska fótboltalandsliðsins, bauð upp á nýjung á æfingu enska landsliðsins í morgun og ruglaði blaðamann BBC alveg í ríminu. Hann hafði aldrei séð þenann leik áður.

Það besta er að umræddur blaðamaður, Steve Crossman, er ekki enn búinn að finna út reglurnar í þessum leik. Hann komst aftur á móti að því að leikurinn er kallaður „gúmmí-kjúklingur“ eða „rubber chicken“ á enskunni.

Fyrir þá sem telja sig vita meira eða hafa áhuga á því að finna út hvernig leikur þetta er þá birti Steve Crossman myndband af ensku strákunum leika sér með þennan svokallað gúmmí-kjúkling. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.





Þótt að Steve Crossman hafi ekkert skilið í reglum leiksins eða komist að því hver vann hann þá sagði hann að þarna hafi komið greinilega fram hversu góður andi og mikil gleði er meðal ensku leikmannanna.

Bryce Cavanagh er 41 árs Ástrali og er þekktur fyrir að bjóða upp á allskyns leiki á æfingum enska liðsins. Ensku strákarnir hafa spilað amerískan fótbolta, indverska eltingarleikinn kabaddi og skotbolta svo eitthvað sé nefnt.





Steve Crossman segir að leikirnir hans Cavanagh hafi slegið í gegn og að þeir hafi líka séð til þess að ensku leikmennirnir hafa ræktað hláturvöðvana alveg eins og alla hina vöðvana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×