Fótbolti

Harry Kane væri í B-deildinni ef Gummi Ben hefði rétt fyrir sér

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur Benediktsson og Hjörvar Hafliðason hafa leiðst hönd í hönd í gegnum enska boltann á Stöð 2 Sport í mörg ár í Messunni og hafa þeir félagararnir rifist um ýmislegt.

Stundum hefur Gummi rétt fyrir sér og stundum Hjörvar en þegar kom að framtíð Harry Kane verður að segjast að Gummi hafi ekki beint hitt naglann á höfuðið eins og kom fram í Sumarmessunni í gærkvöldi.

Hjörvar rifjaði upp þriggja ára gamla klippu úr ensku Messunni þar sem að Guðmundur var ekki sannfærður um ágæti Harry Kane þrátt fyrir að hann væri á þeim tíma markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar.

„Það er hræðilegt að segja þetta en ég hef samt þá tilfinningu að Harry Kane spili í Championship-deildinni með Nottingham Forest eða Sheffield United eftir tvö og hálft til þrjú ár,“ sagði Guðmundur í febrúar árið 2015.

„Ég get lofað þér að svo verður ekki. Það er margt í þessum strák. Hann er stór, mjög sterkur og svo er hann svolítið klár. Mér finnst hann vera með mikla fótboltagreind,“ svaraði Hjörvar.

Kane átti eftir að verða markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar næstu tvö tímabil og fá silfurskóinn til viðbótar við það auk þess sem að hann er nú markahæsti leikmaður HM.

„Við vorum alltaf að rífast um ágæti Harry Kane. Það var bara eitthvað skrítið við útlitið á Harry Kane sem blekkti Guðmund,“ sagði Hjörvar í Sumarmessunni í gær.

Gamla myndbrotið og umræðuna úr Sumarmessunni í gær má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×