Fótbolti

Rúrik: Kompany skólaði mig til í lyftingasalnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski landsliðsmaðurinn Rúrik Gíslason var gestur Sumarmessunnar í gærkvöldi og bauð að sjálfsögðu upp á eina góða bransa sögu í þættinum.

Hjörvar Hafliðason spurði Rúrik þá um tíma hans hjá belgíska félaginu Anderlecht en Rúrik æfði þar með unglingaliði félagsins. Með Anderlecht var einnig Vincent Kompany, núverandi lykilmaður Englandsmeistara Manchester City og belgíska landsliðsins.

„Hann var bara að skóla mig til í lyftingasalnum. Hann var tveimur árum eldri en ég og ég var varla komin með hár, hvergi,“ sagði Rúrik Gíslason og uppskar mikinn hlátur.

„Hann var glerharður, segjandi mönnum að halda kjafti inn á vellinum. Það er svo mikill virðingastigi í fótbolta. Þú kemur svo sjaldan inn í lið sem ungur peyi og byrjar að rífa kjaft við eldri gæjana. Það eru sumir sem geta það og hann var bara langbestur í Anderlecht,“ sagði Rúrik.

Vincent Kompany lék með aðalliði Anderlecht frá 2003 til 2006 en var svo seldur til þýska liðsins Hamburger SV í júní 2006.

Manchester City keypti Kompany í ágúst 2008 og þar hefur hann því verið að verða í áratug. Kompany hefur spilað yfir 330 leiki í öllum keppnum með Manchester City og hefur verið fyrirliði liðsins síðan 2011.

Kompany varð Englandsmeistari með Manchester City í þriðja sinn í vor en hann hefur einnig unnið enska deildabikarinn þrisvar og enska bikarinn einu sinni.

Það má sjá alla sögu Rúriks Gíslasonar um kynni hans af Vincent Kompany í spilaranum hér fyrir ofan.

Sumarmessan er á dagskrá á Stöð 2 Sport klukkan 21:00 að kvöldi hvers leikdags á HM í Rússlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×