Fótbolti

Kane: Mjög sárt en þeir spiluðu betur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kane var niðurbrotinn í leikslok
Kane var niðurbrotinn í leikslok víris/getty
Englendingar spila um bronsverðlaun á HM í Rússlandi eftir tap gegn Króötum í framlengdum undanúrslitaleik í Moskvu í kvöld. Fyrirliðinn Harry Kane sagði vonbrigðin mikil.

„Þetta er erfitt, við erum svo vonsviknir. Við lögðum okkur alla fram og stuðningsmennirnir voru frábærir. Þetta var erfiður leikur, 50-50 leikur,“ sagði Kane við enska fjölmiðla eftir leikinn.

„Við getum horft til baka einhvern tíman seinna og þá munum við sjá hluti sem við hefðum getað gert betur. Þetta er sárt, mjög sárt, en við berum höfuðið hátt. Við komumst lengra en margir spáðu.“

Englendingar komust yfir snemma leiks en Króatar voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik og framlengingunni og var sigurinn í lokinn nokkuð verðskuldaður.

„Við náðum að skapa nokkur góð færi í stöðunni 1-0. Það er mjög mikið af ef og hefði og það er erfitt að kyngja því í svona leik. Það munar svo litlu en féll með þeim í kvöld. Það er mikið sem við hefðum getað gert betur en þeir spiluðu betur.“

„Það er frábært að komast þetta langt og við höfum gert fólkið heima stolt, en við vildum vinna. Þetta er bara sárt. Við sýndum að við getum unnið leik í útsláttarkeppni, getum náð í undanúrslit og næsta skref er að komast enn lengra. Þetta er grunnur sem við byggjum á en við erum leiðir að hafa ekki getað gefið stuðningsmönnunum úrslitaleik,“ sagði Harry Kane.

Englendingar mæta Belgum í leiknum um bronsið á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×