Innlent

Þurrt fram að kvöldfréttum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Myndverið er regnhelt. Edda Andrésdóttir þarf því ekkert að óttast.
Myndverið er regnhelt. Edda Andrésdóttir þarf því ekkert að óttast. Fréttablaðið/ernir
Íbúar suðvesturhornsins mega búast við því að haldast þurrir fram eftir degi. Ætla má að það verði skýjað með köflum á Suður- og Vesturlandi í dag en á vef Veðurstofunnar segir hins vegar að þar muni líklega fara að rigna um kvöldfréttaleytið. Ekki er þó tekið fram hvort átt sé við kvöldfréttir Stöðvar 2 eða Ríkissjónvarpsins.

Því er hins vegar öfugt farið á Norðaustur- og Austurlandi. Þar verður morguninn nokkuð votur en svo mun stytta upp eftir því sem líður á daginn. Þá verða stöku skúrir við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Hitinn verður á bilinu 8 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi í dag en á Norðurlandi á morgun.

Gert er ráð fyrir rigningu sunnanlands á morgun og að það verði úrkomulítið á norðanverðu landinu til kvölds. Það snýst svo í norðlega átt á fimmtudag og mun henni fylgja rigning norðantil. Að sama skapi mun kólna en þó rofa til annars staðar á landinu.

Sólþyrstir Íslendingar geta hins vegar tekið örlitla gleði sína á ný því Veðurstofan býst við því að það verði bjart með köflum á föstudag. Spákortin bera þó með sér að helgin kunni að vera vot - rétt eins og byrjun næstu viku.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Austlæg átt en norðlæg vestast, 5-13 m/s, hvassast við suðausturströndina fyrripartinn. Víða dálítil rigning eða súld, en úrkomulítið um landið norðvestanvert. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á fimmtudag:

Norðan- og norðvestan 5-13. Rigning á Norðaustur- og Austurlandi, annars skýjað með köflum en víða bjartviðri um sunnanvert landið. Hiti 4 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.

Á föstudag:

Vestlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Hiti 8 til 15 stig.

Á laugardag:

Hæg suðlæg átt og rigning með köflum S- og V-lands en þurrt á Norðurlandi. Hiti 9 til 15 stig.

Á sunnudag:

Suðlæg átt og rigning S- og V-lands en bjartviðri NA-til. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast A-lands.

Á mánudag:

Útlit fyrir vestlæga átt og rigningu um vestanvert landið. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast A-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×