Innlent

Þurrt fram að kvöldfréttum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Myndverið er regnhelt. Edda Andrésdóttir þarf því ekkert að óttast.
Myndverið er regnhelt. Edda Andrésdóttir þarf því ekkert að óttast. Fréttablaðið/ernir

Íbúar suðvesturhornsins mega búast við því að haldast þurrir fram eftir degi. Ætla má að það verði skýjað með köflum á Suður- og Vesturlandi í dag en á vef Veðurstofunnar segir hins vegar að þar muni líklega fara að rigna um kvöldfréttaleytið. Ekki er þó tekið fram hvort átt sé við kvöldfréttir Stöðvar 2 eða Ríkissjónvarpsins.

Því er hins vegar öfugt farið á Norðaustur- og Austurlandi. Þar verður morguninn nokkuð votur en svo mun stytta upp eftir því sem líður á daginn. Þá verða stöku skúrir við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Hitinn verður á bilinu 8 til 18 stig, hlýjast á Suðausturlandi í dag en á Norðurlandi á morgun.

Gert er ráð fyrir rigningu sunnanlands á morgun og að það verði úrkomulítið á norðanverðu landinu til kvölds. Það snýst svo í norðlega átt á fimmtudag og mun henni fylgja rigning norðantil. Að sama skapi mun kólna en þó rofa til annars staðar á landinu.

Sólþyrstir Íslendingar geta hins vegar tekið örlitla gleði sína á ný því Veðurstofan býst við því að það verði bjart með köflum á föstudag. Spákortin bera þó með sér að helgin kunni að vera vot - rétt eins og byrjun næstu viku.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Austlæg átt en norðlæg vestast, 5-13 m/s, hvassast við suðausturströndina fyrripartinn. Víða dálítil rigning eða súld, en úrkomulítið um landið norðvestanvert. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á fimmtudag:
Norðan- og norðvestan 5-13. Rigning á Norðaustur- og Austurlandi, annars skýjað með köflum en víða bjartviðri um sunnanvert landið. Hiti 4 til 15 stig, hlýjast sunnanlands.

Á föstudag:
Vestlæg eða breytileg átt og bjart með köflum. Hiti 8 til 15 stig.

Á laugardag:
Hæg suðlæg átt og rigning með köflum S- og V-lands en þurrt á Norðurlandi. Hiti 9 til 15 stig.

Á sunnudag:
Suðlæg átt og rigning S- og V-lands en bjartviðri NA-til. Hiti 9 til 18 stig, hlýjast A-lands.

Á mánudag:
Útlit fyrir vestlæga átt og rigningu um vestanvert landið. Hiti 8 til 15 stig, hlýjast A-lands.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.