Erlent

Íhugar framboð gegn Trump

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Michael Avenatti ásamt umbjóðanda sínum, Stormy Daniels.
Michael Avenatti ásamt umbjóðanda sínum, Stormy Daniels. Vísir/getty
Lögmaðurinn Michael Avenatti, sem varið hefur hagsmuni klámstjörnunnar Stormy Daniels í málarekstri hennar gegn Bandaríkjaforseta, íhugar nú alvarlega að bjóða sig fram gegn Donald Trump, sækist hann eftir endurkjöri í forsetakosningunum árið 2020.

Frá þessu greindi Avenatti í tísti í gærkvöld. Þar sagðist hann ætla að bjóða sig fram ef enginn frambjóðandi kæmi fram „sem hefði raunverulegan möguleika“ á að sigra forsetakosningarnar. „Ég elska landið okkar, gildi þess og þjóð of mikið til að sitja hjá meðan verið er að eyðileggja þetta allt,“ skrifaði Avenatti á Twitter.

Í samtali við CNN staðfesti Avenatti að hann meinti hvert orð í tístinu og bætti við að það væru þrír hlutir sem Trump skortir að hans mati: „Heila, hjarta og hugrekki.“ Hann segist hins vegar vera rétti maðurinn fyrir starfið, enda „baráttuhundur.“

Lögmaðurinn hefur verið einn háværasti gagnrýnandi Trumps á síðustu mánuðum, eða allt frá því að mál klámmyndaleikkonunnar komst í hámæli. Stormy Daniels segist hafa átt í kynferðislegu sambandi við núverandi forseta árið 2006, skömmu eftir að eiginkona hans, Melania Trump, eignaðist son þeirra Barron.

Síðan þá hefur komið í ljós, og verið staðfest af forsetanum sjálfum og lögmönnum hans, að Daniels fékk greidda 130 þúsund dali frá Trump. Hún heldur því fram að markmið greiðslunnar hafi verið að kaupa þögn hennar.

Allar götur síðan hefur Avenatti farið mikinn í gagnrýni sinni á forsetann. Sagði hann til að mynda fyrr á þessu ári að engar líkur væru á því að Trump myndi sitja út allt kjörtímabilið sitt.


Tengdar fréttir

Trump endurgreiddi lögmanninum þagnargreiðsluna

Rudy Giuliani segir að Donald Trump hafi endurgreitt lögmanni sínum, Michel Cohen, þá 130 þúsund dali sem varið var til að þagga niður í klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels.

Sannfærður um að Trump segi af sér

Lögmaður klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels er ekki í vafa um að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, muni ekki sitja út allt kjörtímabil sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×