Erlent

Gefur leyfi fyrir flugi risavaxinnar Trump-fígúru er forsetinn heimsækir London

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Svona lítur fígúran út.
Svona lítur fígúran út.
Sadiq Khan, borgarstjóri London, hefur gefið sitt leyfi fyrir því að risastórri uppblásinni eftirmynd af barnungum Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, verði flogið yfir borgina í næstu viku, á sama tíma og von er á forsetanum í opinbera heimsókn til borgarinnar. BBC greinir frá.

Skipuleggjendur hafa safnað hátt í átján þúsund pundum, um 2,5 hálfri milljón króna, til þess að búa til helíum-fyllta fígúru sem þeir segja tákna persónu Trump sem sé „reitt barn með brothætta sjálfsmynd og pínulitlar hendar.“

Fyrirbærið er sex metra hátt og hafa skipuleggjendurnir fengið leyfi borgarstjórans til þess að fljúga yfir London í tvo klukkutíma að morgni 13. júlí, sama dag og Trump fundar með Theresu May, forsætisráðherra Bretlands í Downing-stræti 10.

Svona sjá skipuleggjendurnir að flugið verði.

Vantar enn leyfi frá flugmálayfirvöldum

Í samtali við BBC segir Leo Murray, einn af skipuleggjendunum, að brösuglega hafi gengið að fá leyfi frá borgaryfirvöldum, sem í fyrstu vildu ekki samþykkja að viðburðurinn gæti flokkast undir lögmæt mótmæli.

Í yfirlýsingu frá borgarstjóranum segir hins vegar að hann styðji réttinn til friðsamlegra mótmæla og að hann skilji að mótmæli geti tekið á sig hin ýmsu form.

Hefur borgarstjórinn meðal annars gefið leyfi fyrir því að för hinnar uppblásnu fígúru hefjist við þinghúsið í London, aðeins steinsnar frá Downing-stræti 10.

Ekki er hins vegar alveg víst að af flugi fígúrunnar verði þar sem einnig þarf að fá leyfi frá lögreglunni, sem og flugmálayfirvöldum. Eru skipuleggjendurnir þó vongóðir um að öll leyfi verði eitt á endanum, og að hinn barnungi Trump fái að fljúga.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×