Erlent

Bandaríski utanríkisráðherrann gerir lítið úr gífuryrðum Norður-Kóreumanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Pompeo (f.m.) hélt til Japan eftir heimsóknina til Norður-Kóreu.
Pompeo (f.m.) hélt til Japan eftir heimsóknina til Norður-Kóreu. Vísir/EPA
Viðræður Bandaríkjanna og Norður-Kóreu um afkjarnavopnun halda áfram þrátt fyrir ásakanir Norður-Kóreumanna um að Bandaríkjamenn hegði sér eins og „glæponar“, að sögn Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Tveggja daga viðræðum Pompeo og norður-kóreskra ráðamanna lauk í gær. Pompeo lýsti viðræðunum sem gagnlegum og árangursríkum en skömmu síðar sagði talsmaður utanríkisráðuneytis Norður-Kóreu að þær hefðu verið „hörmulegar“. Sökuðu stjórnvöld í Pjongjang Bandaíkjamenn um að hegða sér eins og „glæponar“ með því að þrýsta á um einhliða afvopnun.

Nú segir Pompeo að mikið verk sé enn fyrir hendi en að hann væri sannfærður um að Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, ætlaði sér að standa við loforð um afkjarnavopnun sem hann hafi gefið Donald Trump Bandaríkjaforseta á fundi þeirra í síðasta mánuði, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar. Ef það væri glæponalegt að krefjast afkjarnavopnunar þá væri allur heimurinn glæponar.

„Þegar við ræddum við þá um afkjarnavopnun þá mótmæltu þeir ekki. Leiðin verður erfið og mun reyna á og við vitum að gagnrýnendur munu reyna að gera lítið úr því sem við höfum náð fram,“ sagði Pompeo við fréttamenn í Japan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×