Fótbolti

Hannes segir Rúrik loksins fá þá viðurkenningu sem hann eigi skilið

Kolbeinn Tumi Daðason í Kabardinka skrifar
Þrjár af fjölmörgum fréttum erlendra miðla af samfélagsmiðlafrægð Rúriks.
Þrjár af fjölmörgum fréttum erlendra miðla af samfélagsmiðlafrægð Rúriks.
620 þúsund. Það er fylgjendafjöldi Rúriks Gíslasonar að morgni 20. júní. Lygileg tala og bara tímaspursmál hvenær hann verður sá stærsti á Íslandi ef fram heldur sem horfir.

Alfreð Finnbogason og Hannes Þór Halldórsson, hetjurnar úr 1-1 jafnteflinu gegn Argentínu, sátu fyrir svörum á blaðamannafundi í Kabardinka í morgun. Eftir spurningar sem sneru að Nígeríuleiknum fóru spurningarnar á persónulegra stig. Meðal annars um nýlega frægð Rúriks Gíslasonar.

„Rúrik er loksins að fá þá viðurkenningu sem hann á skilið,“ sagði Hannes Þór og uppskar mikinn hlátur meðal blaðamanna í tjaldinu.

Létt var yfir Alfreð og Hannesi á blaðamannafundinum í morgun.Vísir/Vilhelm
„Þetta er náttúrulega bara fyndið og léttmeti í hópnum, skemmtilegt fyrir hann og við hlæjum að þessu,“ segir Alfreð. Það hafi verið skrýtið inni í klefa eftir Argentínuleikinn þegar Rúrik kíkti á Instagram. Hann hafi aukið fylgjendafjöldann afar mikið og menn ekki áttað sig á því hvað væri í gangi.

„Ég veit ekki hvað var í gangi í Suður-Ameríku,“ segir Alfreð. „En þetta er mjög jákvætt fyrir hann og hans markaðsvirði er að aukast.“





Rúrik hefur verið lengi á Instagram, birt flottar myndir af sér en viðbrögðin núna eru ótrúleg.

„Það var nú mikil vinna lögð í þetta fyrir,“ segir Alfreð. Rúrik hafi ekki sett inn mynd á Instagram í tvo til þrjá daga eftir leikinn.

„Það eru fleiri fylgjendur sem þarf að sinna núna, leggja enn meiri vinnu í þetta,“ segir Alfreð og grínast. Greinilegt að landsliðsmennirnir hafa gaman af þessari nýju frægð Rúriks. Alfreð segir þetta skemmtilegt og dreifi athyglinni.

„Ég get sagt ykkur að honum leiðist þetta ekkert.“

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×