Lífið

Argentínsk ferðaskrifstofa notar fáklæddan Rúrik til að auglýsa flug til Íslands

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rúrik Gíslason hefur sankað að sér nýjum aðdáendum í kjölfar leiks Íslands og Argentínu í gær.
Rúrik Gíslason hefur sankað að sér nýjum aðdáendum í kjölfar leiks Íslands og Argentínu í gær. Vísir/AFP

Argentínska ferðaskrifstofan og -leitarvélin Turismocity notfærði sér vinsældir strákanna okkar í fótboltalandsliðinu í kjölfar leiks Íslands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í gær. Í færslu, sem ferðaskrifstofan birti á Facebook, er vakin athygli á flugferðum til Íslands og mynd af Rúrik Gíslasyni, miðjumanni íslenska liðsins, látin fylgja með.

„Stelpur og strákar, við bjóðum upp á flug til Íslands fyrir 30 þúsund... Hver ætlar með?“ spyr ferðaskrifstofan og vísar í tengil á vefsíðu sína þar sem hægt er að fjárfesta í Íslandsferðum fyrir um 30 þúsund argentínska pesóa, eða um 114 þúsund krónur íslenskar.

Til að vekja áhuga vænlegra kaupenda hleður ferðaskrifstofan upp mynd af áðurnefndum Rúrik, glaðlegum á svip, ber að ofan og með tvo þumla á lofti. Yfir 13 þúsund manns hafa „líkað“ við færsluna, sem eru töluvert umfangsmeiri viðbrögð en ferðaskrifstofan á að venjast miðað við fyrri færslur á Facebook-síðu hennar.

Vísir fjallaði um stórauknar vinsældir Rúriks á samfélagsmiðlum í gær en skömmu eftir leikinn gegn Argentínu stóð fylgjendafjöldi hans á Instagram í 40 þúsund. Þegar þetta er skrifað er Rúrik með 302 þúsund fylgjendur á miðlinum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.