Marcos Rojo stalst fram og skaut Argentínu inn í sextán liða úrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marcos Rojo fagnar sigurmarki sínu með Messi.
Marcos Rojo fagnar sigurmarki sínu með Messi. Vísir/Getty
Argentínumenn tryggðu sér annað sætið í D-riðli og leik á móti Frökkum í sextán liða úrslitum HM í Rússlandi eftir 2-1 sigur á Nígeríumönnum. Argentínumenn sluppu með skrekkinn í þessum riðli og fylgja Króötum í næstu umferð.

Argentínumenn þurftu eitthvað sérstakt til að bjarga sér úr vandræðunum í seinni hálfleik og það var frábært mark miðvarðarins Marcos Rojo sem færði liðinu sigurinn.

Manchester United maðurinn stalst fram og skoraði með stórglæsilegu viðstöðulausu skoti úr teignum. Hann fagnaði síðan með Lionel Messi á herðunum sem var táknrænt. Messi þurfti hjálp og hana fékk hann frá miðverðinum öfluga.

Argentínumenn voru frábærir í fyrri hálfleik en skoruðu bara eitt mark. Markið skoraði Lionel Messi með frábærri afgreiðslu og var síðan nálægt því að skora beint úr aukaspyrnu.

Nígeríumenn spiluðu svipaðan leik og á móti Íslandi. Þeir voru miklu betri í seinni hálfleik og létu þá finna vel fyrir sér.

Seinni hálfleikurinn var mjög slakur hjá Argentínumönnum og Lionel Messi hreinlega hvarf.

Nígeríumenn náðu að jafna metin úr vítaspyrnu og sú staða hefði dugað þeim til að komast áfram. Lengi vel leit út fyrir að Argentínumenn ætluðu ekki að ná inn sigurmarkinu en það kom loksins en úr ólíklegri átt.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira