Innlent

Netlaust í hluta Úlfarsárdals fram yfir landsleikinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Úlfarsárdal. Myndin er úr safni.
Frá Úlfarsárdal. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm
Fjarskiptasamband liggur nú niðri í kringum Fryggjarbrunn í Úlfarsárdal í Reykjavík eftir að ljósleiðari Mílu slitnaði í götunni skömmu fyrir klukkan fjögur síðdegis. Upplýsingafulltrúi Mílu segir slitið hafa áhrif á sjónvarpssamband og að ekki verði hægt að ljúka viðgerð áður en leik Íslands og Króatíu lýkur.

Sigurrós Jónsdóttir, upplýsingafulltrúi Mílu, segir að viðgerðarflokkur vinni nú að fullu að viðgerðum á ljósleiðaranum. Það sé hins vegar stór aðgerð og skipta þurfi hluta strengsins út. Ekki náist að ljúka viðgerð áður en leik Íslands og Króatíu í lokaleik riðlakeppninnar á HM í Rússlandi lýkur. Leikurinn hófst kl. 18 og lýkur um kl. 19:45.

Ekki liggur fyrir hvað olli því að ljósleiðarinn slitnaði. Þá segist Sigurrós ekki hafa upplýsingar um hversu mörg heimili séu án netsambands eða hvaða fjarskiptafélög hafi orðið fyrir röskunum. Net liggir hins vegar niðri í hverfinu í kringum götuna.

„Fólk þarf bara að drífa sig eitthvert annað til þess að horfa á leikinn,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×