Fótbolti

Heimir setti nýtt íslenskt landsliðsþjálfaramet í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. Vísir/EPA
Heimir Hallgrímsson er nú sá Íslendingur sem hefur stýrt landsliði í flestum leikjum en hann tók metið af Teiti Þórðarsyni í gær.

Heimir Hallgrímsson stýrði íslenska landsliðinu í 58. sinn í Rostov-on-Don í gærkvöldi þegar strákanir léku sinn síðasta leik á HM í fótbolta í Rússlandi.

Teitur Þórðarson var búinn að eiga metið í tuttugu ár eða frá því að hann tók það af Ásgeiri Elíassyni árið 1998.

Teitur stýrði eistneska landsliðinu á árunum 1996 til 1999 og léku Eistar alls 57 landsleiki á þessum fjórum árum. Einn af þessum leikjum var einmitt á móti íslenska landsliðinu.

Sá leikur var sögulegur því feðgarnir Arnór Guðjohnsen og Eiður Smári Guðjohsen tóku báðir þátt í leiknum. Eiður Smári kom inná fyrir Arnór á 62. mínútu. Ísland vann leikinn 3-0 og skoraði Bjarki Gunnlaugsson öll mörkin.

Heimir Hallgrímsson stýrði íslenska landsliðinu með Lars Lagerbäck í fyrstu 32 leikjunum en hefur verið einn með liðið í síðustu 26 leikjum.

Heimir var einnig aðstoðarþjálfari Lars Lagerbäck í tutttugu leikjum frá 2012 til 2014 og hefur því verið á bekknum í alls 78 landsleikjum Íslands á síðustu sex árum.

Flestir á topplistanum hafa stýrt íslenska landsliðinu en þar er einnig Páll Guðlaugsson sem stýrði færeyska landsliðinu í 25 leikjum frá 1988 til 1993.

Flestir leikir hjá íslenskum landsliðsþjálfurum:

(A-landslið karla í fótbolta)

58 - Heimir Hallgrímsson (Ísland 2014-2018)

57 - Teitur Þórðarson (Eistland 1996-1999)

39 - Ólafur Jóhannesson (Ísland 2007-2011)

38 - Logi Ólafsson (Ísland 1996-1997, 2003-2005)

34 - Ásgeir Elíasson (Ísland 1991-1995)

31 - Atli Eðvaldsson (Ísland 2000-2003)

25 - Páll Guðlaugsson (Færeyjar 1988-1993)

25 - Guðjón Þórðarson (Ísland 1997-1999)

Teitur Þórðarson.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×