Japan í 16-liða úrslitin á færri gulum spjöldum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Japanir fagna í leikslok.
Japanir fagna í leikslok. Vísir/getty
Japan er komið í 16-liða úrslitin á HM í Rússlandi þrátt fyrir að hafa tapað 1-0 gegn Póllandi  í lokaumferð H-riðilsins. Leikið var í hitanum í Volgograd.

Japan endaði með fjögur stig, jafn mörg og Senegal, og var markatala liðanna einnig sú sama. Þau skoruðu bæði jafn mörg mörk og fengu á sig jafn mörg og því réðust hlutirnir á því hversu mörg gul spjöld liðin fengu.

Senegal endaði á að fá sex refstistig en Japan fékk ekki nema fjögur og fer því áfram á færri refsistigum. Þetta er í fyrsta skipti í sögu HM sem lið dettur út af HM á þessum reglum.

Fyrri hálfeikur Japans og Póllands var ekki mikið fyrir augað. Bæði lið fengu vart færi en eina alvöru færið áttu Pólverjar er þeir áttu hörkuskalla sem var varinn af Eiji Kawashima.

Pólverjar fagna sigurmarkinu.vísir/getty
Markalaust í hálfleik en í síðari hálfleik var örlítið meira fjör í leiknum þó ekki mikið. Eina mark leiksins kom á 59. mínútu er Jan Bednarek skoraði eftir aukaspyrnu.

Undir lokin vissu greinilega Japanir hvernig staðan væri í hinum leiknum því þeir sendu bara boltann á milli sín aftast í vörninni án þess að Pólverjar pressuðu þá neitt, enda með sigurinn í höfn.

Síðustu mínúturnar gerðist því ekkert í leiknum og var baulað á bæði lið er flautað var til leiksloka. Japanir og stuðningsmenn þeirra fögnuðu þó er það var flautað til leiksloka í leik Kólumbíu og Senegal sem endaði með 1-0 sigri Kólumbíu.

Japan er því komið áfram í 16-liða úrslitin eins og áður segir en þar mætir liðið annað hvort Belgíu eða Englandi en það skýrist í kvöld. Pólverjar eru úr leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira