Fótbolti

Marokkóar brjálaðir yfir dómgæslunni á HM | Forsetinn sendi FIFA bréf

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Marokkóar telja að á sér hafi verið brotið
Marokkóar telja að á sér hafi verið brotið vísir/getty
Marokkóar eru allt annað en sáttir við dómgæsluna á HM í Rússlandi og telja gróflega hafa verið brotið á sér.

Marokkó sat eftir í B-riðli þar sem Portúgal og Spánn fóru áfram en Marokkóar fengu aðeins eitt stig; töpuðu gegn Íran og Portúgal áður en þeir gerðu jafntefli við Spánverja.

Fouzi Lekjaa, forseti knattspyrnusambands Marokkó, hefur sent formlega kvörtun inn á borð til FIFA og er hún birt í heild sinni á Twitter reikningi knattspyrnusambandsins eins og sjá má hér fyrir neðan. 

„Við viljum lýsa yfir reiði okkar vegna þess óréttlætis sem landsliðið okkar mátti þola í kjölfar alvarlegra dómaramistaka sem leiddu til þess að liðið féll úr leik of snemma, í fyrstu umferð Heimsmeistarakeppninnar," er meðal þess sem segir í bréfinu.

Í bréfinu eru listuð upp helstu dómarnir sem Marokkóar eru ósáttir með en um er að ræða þrjú atvik í 1-0 tapi gegn Portúgal og fimm atvik í 2-2 jafnteflinu gegn Spánverjum.

Cristiano Ronaldo gerði eina mark Portúgals með skalla eftir hornspyrnu en þar vildu Marokkóar meina að Portúgalar hefðu brotið af sér inn í vítateignum áður en Ronaldo skallaði boltann í netið. Marokkóar gerðu tilkall til vítaspyrnu tvisvar í leiknum og eru mjög ósáttir með að dómari leiksins hafi ekki nýtt sér myndbandatæknina.

Í kjölfar tapsins gegn Portúgal var Marokkó úr leik fyrir lokaleikinn gegn Spáni. Meðal þess sem þeir kvarta yfir í þeim leik var jöfnunarmark Spánverja sem skorað var á lokaandartökum leiksins.


Tengdar fréttir

FIFA neitar því að dómari hafi beðið um treyju Ronaldo

Marokkó er úr leik á HM í fótbolta eftir 1-0 tap gegn Portúgal í gær þar sem Cristiano Ronaldo skoraði eina mark leiksins. Eftir leik sagði Nordin Amrabat dómara leiksins hafa beðið um treyju Ronaldo eftir leik.

Ronaldo refsaði Marokkó fyrir dýrkeyptan klaufaskap

Portúgal er í vænlegri stöðu en Marokkó er úr leik á HM í Rússlandi eftir eins marks sigur Portúgala í fyrsta leik dagsins. Mark Cristiano Ronaldo á fjórðu mínútu gerði út um leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×