Akinfeev hetjan í vítakeppni

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Meistaraleg markvarsla Akinfeev sendi Rússa áfram
Meistaraleg markvarsla Akinfeev sendi Rússa áfram Vísir/Getty
Igor Akinfeev var hetja Rússa gegn Spánverjum þegar hann varði tvær vítaspyrnur í vítaspyrnukeppni og tryggði Rússum sæti í 8-liða úrslitum HM í fótbolta.

Leikurinn var einstaklega bragðdaufur og var ljóst mjög snemma að vítaspyrnukeppni væri í kortunum. Það varð svo og þar varð markvörðurinn Igor Akinfeev, liðsfélagi Harðar Björgvins Magnússonar hjá CSKA Moskvu, hetjan. Hann varði þriðju spyrnu Spánverja frá Koke, Sergio Ramos skoraði úr fjórðu spyrnunni áður en Iago Aspas steig á punktinn fyrir síðustu spyrnu Spánverja og hann varð að skora til þess að halda Spánverjum í keppni því Rússar höfðu skorað úr öllum spyrnum sínum.

Aspas tók langt aðhlaup, skaut að marki og Akinfeev kastaði sér til hliðar. Boltinn fór nokkuð beint á markið og Akinfeev varði hann stórglæsilega með vinstri fæti.

Spánverjar höfðu komist yfir snemma leiks með sjálfsmarki Sergei Ignashevich áður en Rússar jöfnuðu úr vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Gerard Pique handlék boltann klaufalega innan teigs og réttilega dæmt víti sem Artem Dzyuba skoraði úr.

Seinni hálfleikur var yfirburða óeftirminnilegur og líklega daufasti hálfleikur mótsins. Framlengingin var ekki mikið skárri, þar reyndu þó Spánverjarnir aðeins meira að sækja sigurinn, þeir vildu ekki fara í vítakeppni, á meðan Rússar virtust vera að spila upp á vítaspyrnukeppnina.

Þegar að henni fór sagan eins og áður segir, Rússar sigruðu. Spánverjar eru með hærra skrifað lið og einstaklinga í sterkari liðum. Þeir hins vegar náðu ekki að sýna nein sérsök gæði í dag og eru úr leik. Heimamenn fara áfram í 8-liða úrslit þar sem þeir mæta annað hvort Króötum eða Dönum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira