Innlent

Bíræfinn þjófur sólginn í lúxusvörur fær átta mánaða dóm

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg.
Héraðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg. Vísir/Stefán

Lithái á þrítugsaldri hefur verið dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir margvíslegan þjófnað og innbrot í heimili á höfuðborgarsvæðinu. Svo virðist sem að hann hafi verið sérstaklega sólginn í ýmiss konar lúxusvarning.

Maðurinn var handtekinn í febrúar er hann, í félagi við annnan mann, reyndi að brjótast inn í íbúðarhúsnæði í Garðabæ. Svo virðist sem að maðurinn hafi verið stórtækur í innbrotum.

Ákæra yfir manninum var í tólf liðum þar sem sundurliðað var hvað manninum var gefið að sök að hafa stolið. Meðal þess voru ilmvatnsglös frá Chanel og Boss, úr frá Gucci, armband frá Michael Kors, sérsmíðaðir skartgripir og úr eftir íslenska hönnuði og svo mætti lengi áfram telja.

Þá fannst einnig á dvalarstað mannsins, þar sem flestir munirnir úr innbrotunum voru geymdir, myntsafn þar sem meðal annars mátti finna íslenska seðla og myntir frá árinu 1928.

Flest innbrotin áttu sér stað í Garðabæ, Kópavogi en nokkur í Reykjavík um það leyti sem innbrotahrina átti sér stað á höfuðborgarsvæðinu.

Við þingfestingu málsins játaði maðurinn skýlaust sök og var hann dæmdur í átta mánaða fangelsi, en frá því dregst sá tími sem hann sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þá voru peningaseðlar, skartgripir og aðrir munir gerðir upptækir.

Dóm Héraðsdóms Reykjavíkur má lesa hér.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.