Erlent

Kanadíska þingið fordæmir Trump og félaga

Kjartan Kjartansson skrifar
Justin Trudeau við þinghúsið í Ottawa.
Justin Trudeau við þinghúsið í Ottawa. Vísir/EPA
Neðri deild kanadíska þingsins samþykkti einróma að fordæma árásir Donalds Trump Bandaríkjaforseta og ráðgjafa hans á Justin Trudeau, forsætisráðherra. Þingmennirnir telja persónuárásir þeirra skaða tvíhliða samskipti nágrannaríkjanna.

Trump sakaði Trudeau um tvískinnung eftir G7-leiðtogafundinn sem fór fram í Kanada um síðustu helgi. Sagði hann kanadíska forsætisráðherrann „mjög óheiðarlegan og veikan“. Peter Navarro, efnahagsráðgjafi Trump, gekk enn lengra í sjónvarpsviðtali og sagði „sérstakan stað í helvíti“ fyrir Trudeau vegna meintra svika hans við Trump.

Stjórnarandstöðuflokkurinn Nýju demókratarnir lagði fram þingsályktunartillögu um að fordæma persónuárásirnar á mánudag. Hún var samþykkt einróma. Þingmenn gáfu ríkisstjórninni einnig standandi lófaklapp fyrir viðbrögð hennar við árásum ríkisstjórnar Trump á Trudeau, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Það voru orð Trudeau um að Kanadamenn létu ekki ráðskast með sig með tolla á blaðamannafundi eftir að Trump hafði yfirgefið G7-fundinn sem fór svo mjög fyrir brjóstið á Bandaríkjaforseta og fylgitunglum hans.

Ekkert nýtt var þó í yfirlýsingum Trudeau á blaðamannafundinum. Sambærileg ummæli hafði hann látið falla í bandarískum fjölmiðlum vikuna fyrir G7-fundinn og við Trump sjálfan eftir að bandaríska ríkisstjórnin setti verndartolla á innflutt stál og ál.

Ofsi bandarískra ráðamanna í garð nágranna sinna og nánustu bandamanna hefur almennt fallið í grýttan jarðveg í Kanada. Þar hefur jafnvel verið kallað eftir sniðgöngu á bandarískum vörum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×