Erlent

Leigubíl ekið á gangandi vegfarendur í Moskvu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skjáskot úr öryggismyndavél á svæðinu. Gríðarlegur fjöldi ferðamanna er staddur í Moskvu um þessar mundir vegna HM.
Skjáskot úr öryggismyndavél á svæðinu. Gríðarlegur fjöldi ferðamanna er staddur í Moskvu um þessar mundir vegna HM. Vísir/AFP
Átta eru slasaðir eftir að leigubílstjóri ók á hóp gangandi vegfarenda í miðborg Moskvu í dag. Á meðal hinna slösuðu eru mexíkóskir knattspyrnuaðdáendur sem staddir eru í borginni til að fylgjast með heimsmeistaramótinu sem þar fer fram.

Í myndskeiði úr öryggismyndavélum á svæðinu sést að ökumaðurinn tók skarpa beygju út úr bílaröð og ók bílnum upp á gangstétt. Bílstjórinn flúði vettvang en nokkrir vegfarendur veittu honum eftirför, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í Moskvu er leigubílstjórinn 28 ára karlmaður frá Kirgistan. Þá fer tvennum sögum af tildrögum atviksins, borgarstjóri Moskvu sagði manninn hafa misst stjórn á bílnum en heimildarmenn rússneskra miðla segja hann hafa sofnað við stýri.

Eins og áður sagði fer heimsmeistaramótið í knattspyrnu nú fram í Rússlandi og spilaði Ísland sinn fyrsta leik á mótinu í dag. Yfirvöld í landinu hafa heitið stóraukinni öryggisgæslu í öllum borgum vegna HM.

Hér að neðan má sjá myndband af því þegar bílnum var keyrt á fólkið. Rétt er að vara við myndbandinu en efni þess kann að vekja óhug hjá einhverjum lesenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×