Erlent

Forsetinn kennir Demókrötum um að fjölskyldum er sundrað

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stefnu bandarískra yfirvalda hefur verið mótmælt víða.
Stefnu bandarískra yfirvalda hefur verið mótmælt víða. Vísir/Getty
Á sex vikna tímabili voru tæplega tvö þúsund börn aðskilin frá fjölskyldum sínum við komuna til Bandaríkjanna. Um börn ólöglegra innflytjenda er að ræða. Málamyndafrumvarp hefur verið lagt fram á þinginu.

Frá því að Donald Trump tók við völdum hafa stjórnvöld boðað hertar aðgerðir gegn fólki sem reynir að komast með ólöglegum hætti inn í landið. Áður var sú regla í gildi að fólk sem var stöðvað við að reyna að komast ólöglega yfir landamærin var sektað. Meðal aðgerða sem gripið hefur verið til er að saksækja fólk sem gómað er á landamærunum. Börn eru tekin frá foreldrum á meðan dómsmál er rekið.

Meðan málareksturinn stendur yfir er börnunum komið til barnaverndaryfirvalda sem hugsa um þau eða koma þeim í fóstur. Vegna þess fjölda sem reynir að komast ólöglega inn í landið eru slík úrræði af skornum skammti en áætlað er að um 1.500 séu handteknir daglega við athæfið.



Bandarísk stjórnvöld birtu fyrir skemmstu upplýsingar um hve mörg börn hefðu sætt slíkri meðferð að undanförnu. Gögnin leiddu meðal annars í ljós að frá 19. apríl til 31. maí voru 1.995 börn tekin frá foreldrum sinna. Aldursdreifing barnanna fékkst ekki uppgefin.

„Ég vil vitna til skýrra og spakra orða postulans Páls úr bréfum hans til Rómverja um að rétt sé að lúta lögum yfirvalda því þau eru skipuð af Guði,“ sagði dómsmálaráðherrann Jeff Sessions spurður um málið. „Stefna okkar, sem getur haft það í för með sér að börn séu aðskilin frá foreldrum sínum í skamma stund, er hvorki óvanaleg né óréttlætanleg.“

Sjá einnig: Melania blandar sér í deilur um innflytjendafjölskyldur

„Demókratar eru að stía fjölskyldum í sundur með hræðilegri og ómannúðlegri framgöngu sinni á þinginu. Frumvarp um breytingar á innflytjendalöggjöfinni VERÐUR að innihalda fjárheimildir fyrir Vegginn,“ ritaði forsetinn.

„Demókratar geta bætt fyrir að þeir sundri fjölskyldum ólöglegra innflytjenda með því að vinna með Repúblíkönum að nýjum innflytjendalögum til tilbreytingar!“ tísti Trump síðar.

Aðgerðir stjórnarinnar hafa verið harðlega gagnrýndar af Demókrötum en flestir Repúblíkanar styðja þær. Það er þó ekki algilt. Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar þingsins, sagði meðal annars að hann væri ekki laus við áhyggjur yfir meðferðinni sem börnin sæta. Þá lögðu nokkrir þingmenn flokksins fram tillögu á þinginu í liðinni viku þess efnis að fjölskyldur skyldu vistaðar saman meðan mál þeirra væru leidd til lykta. Áætlað er að greidd verði atkvæði um frumvarpið í vikunni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.