Erlent

Auðmaður í gæsluvarðhaldi vegna „morðsins“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Mál Arkady Babchenko hefur vakið mikla athygli, enda þykir mörgum sviðsetningin grafa undan trúverðugleika fjölmiðla.
Mál Arkady Babchenko hefur vakið mikla athygli, enda þykir mörgum sviðsetningin grafa undan trúverðugleika fjölmiðla. VÍSIR/AFP
Dómstóll í Úkraínu hefur samþykkt gæsluvarðhald yfir auðmanni sem talinn er hafa lagt á ráðin um að myrða rússneska blaðamanninn, sem talið var að hafi verið myrtur í vikunni.

Borys Herman er sagður á vef breska ríkisútvarpsins hafa greitt leigumorðingja um 15 þúsund bandaríkjadali, um 1,5 milljón króna, fyrir að koma Arkady Babchenko fyrir kattarnef.

Hann þvertekur fyrir ásakanirnar, segist ekki hafa viljað Babchenko feigan og hann hafi þvert á móti verið samvinnufús þegar úkraínska leyniþjónustan setti sig í samband við hann.

Hér má sjá Babchenko liggja í svínsblóðinu.
Leyniþjónustan setti morð Babchenko á svið á þriðjudag, með það fyrir augum að hafa uppi á mönnum sem taldir eru hafa lagt á ráðin um að myrða blaðamanninn.

Málið vakti athygli, ekki síst vegna þess að Babchenko mætti á blaðamannafund daginn eftir „morðið,“ sprelllifandi. Þar tilkynnti hann gapandi blaðamönnum að svínsblóð og förðunarfræðingur höfðu séð til þess að hann virtist hafa verið skotinn til bana fyrir utan íbúð sína í Kænugarði.

Babchenko segir að fyrrnefndur Borys Herman hafi innt greiðsluna af hendi eftir að fréttir af „morðinu“ fóru að berast. Jafnframt er því haldið fram að maðurinn sem Herman hafði fengið til verksins hafi verið á mála úkraínsku leyniþjónustunnar.

Gæsluvarðhaldið yfir Borys Herman, sem starfar fyrir vopnaframleiðanda, er til tveggja mánaða.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×