Umfjöllun og viðtöl: Þór/KA - Stjarnan 0-2 | Stjarnan sló Íslandsmeistarana út

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Stjörnukonur gerðu góða ferð norður á Akureyri í kvöld.
Stjörnukonur gerðu góða ferð norður á Akureyri í kvöld. vísir/ernir
Stjarnan er komið í 8-liða úrslit Mjólkurbikars kvenna eftir 0-2 sigur á Íslandsmeisturum Þórs/KA en liðin mættust á Þórsvelli á Akureyri í kvöld að viðstöddum tæplega 300 manns.

Leikurinn fór afskaplega rólega af stað og í raun gerðist ekki mikið fyrr en á 18.mínútu þegar Stjarnan komst yfir eftir klaufagang heimakvenna. Boltinn tapaðist illa á miðjunni og beint fyrir fætur Guðmundu Brynju Óladóttur sem kom sér í skotfæri. Skot Guðmundu með vinstri fæti var þokkalega fast en ekki mjög hnitmiðað. Það kom þó ekki að sök því Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir rann til í markinu og náði ekki að gera tilraun til að verja boltann sem söng í netinu og staðan orðin 0-1.

Þór/KA var meira með boltann í fyrri hálfleik án þess að skapa sér teljandi marktækifæri. Stjarnan hins vegar nýtti tímann sinn með boltann þeim mun betur og sköpuðu sér góð færi. Eftir rúmlega hálftíma leik átti Katrín Ásbjörnsdóttir gott skot úr góðu færi en Bryndís Lára varði frábærlega. Bryndís Lára kom aftur til bjargar skömmu síðar þegar Harpa Þorsteinsdóttir slapp í gegn.

Harpa hafði hins vegar betur skömmu síðar þegar hún fylgdi á eftir, eftir enn eina markvörslu Bryndísar. Staðan í hálfleik því 0-2 fyrir Stjörnuna og ekki hægt að segja annað en að forystan hafi verið verðskulduð.

Síðari hálfleikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Stjörnunnar en þrátt fyrir það tókst heimakonum illa að brjóta sterka vörn Stjörnunnar á bak aftur. Fyrir aftan sterka vörnina var svo Birna Kristjánsdóttir vel á verði og greip hún nokkrum sinnum vel inn í á mikilvægum augnablikum auk þess sem hún varði frábærlega í tvígang frá Söndru Stephany Mayor á lokamínútu leiksins.

Tveggja marka sigur Stjörnukvenna staðreynd og verða þær því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin. Er þetta annað árið í röð sem Garðabæjarliðið sendir Þór/KA úr keppni.

 

Afhverju vann Stjarnan?

Stjörnukonur lögðu grunninn að sigrinum með góðum fyrri hálfleik. Þó Þór/KA hafi verið mun meira með boltann virkuðu snarpar sóknaraðgerðir Stjörnunnar frábærlega í fyrri hálfleik. Vörn Þórs/KA er stjörnum prýdd og hefur vart stigið feilspor til þessa í sumar. Það var ekki alveg það sama upp á teningnum í fyrri hálfleiknum í dag þar sem gestirnir opnuðu vörnina upp á gátt í nokkur skipti.

Hverjar stóðu upp úr

Guðmunda Brynja Óladóttir og Birna Kristjánsdóttir voru bestu leikmenn vallarins í dag. Guðmunda skoraði fyrra markið og bjó til síðara markið með frábærum spretti upp hægri kantinn og þar með var leikurinn unninn. Birna stóð vaktina vel í markinu og þó hún hafi ekki þurft að verja mörg skot átti hún mörg góð úthlaup og voru tvö þeirra sérstaklega mikilvæg.



Heimakonur áttu afleitan dag og erfitt að taka einhvern leikmann út þar. Það væri þá kannski helst Bryndís Lára í markinu. Þó hún hafi gert sig seka um slæm mistök í markinu sem kom Stjörnunni á bragðið varði hún hins vegar í tvígang frábærlega og kom í veg fyrir að sigur Stjörnunnar yrði stærri.

 

Hvað gekk illa?

Þór/KA gekk mjög illa að skapa sér marktækifæri í dag. Þær voru töluvert meira með boltann allan tímann en áttu alls ekki mörg opin marktækifæri í leiknum. Sandra Mayor reyndi mikið en gekk ekki vel auk þess sem hún fékk litla hjálp frá stöllum sínum í sóknarlínunni í dag.



Hvað er næst?

Bikardráttur hjá Stjörnukonum á meðan Norðankonur sleikja sárin. Í kjölfarið er svo landsleikjahlé og ansi margir leikmenn beggja liða á leið í landsliðsverkefni. Næsti leikur í deild hjá þessum liðum 19. og 20.júní næstkomandi.

Ólafur Þór: Frábært að sjá viljann í liðinu
Ólafur Þór er þjálfari Stjörnunnar.vísir
Ólafur Þór Guðbjörnsson var sigurreifur í leikslok og var mjög sáttur við afrakstur dagsins.

„Þetta var baráttuleikur eins og við vissum. Við vorum í því að verjast löngu boltunum þeirra og gerðum það vel. Svo skoruðum við tvö frábær mörk í fyrri hálfleik og lögðum grunninn að þessu. Þær lágu aðeins á okkur í síðari hálfleik en sköpuðu ekki neitt og við vorum bara sáttar við það.“

Stjarnan tapaði niður tveggja marka forystu gegn Þór/KA fyrir skömmu þegar liðin áttust við í úrslitaleik Lengjubikarsins. Fór að lokum svo að Þór/KA vann í vítaspyrnukeppni. Ólafur segir að liðið hafi nýtt þá reynslu á jákvæðan hátt í dag.

„Já klárlega. Við reynum að læra af reynslunni. Við komumst tveimur mörkum yfir þá og misstum það niður og töpuðum í vítakeppni. Það sást á viljanum í liðinu í seinni hálfleik að við ætluðum ekki að láta það gerast aftur. Það var frábært að sjá það,“ sagði Ólafur.

„Það er frábært að ná sigri hérna. Það er alltaf gaman að koma til Akureyrar að spila og þær eru með frábært lið sem hefur gengið vel. Það er mikilvægt að ná sigri, bæði því við viljum vera með í þessari keppni en fyrst og fremst að sýna sjálfum okkur að við getum unnið þessi lið sem eru fyrir ofan okkur,“ sagði Ólafur að lokum.

 

Donni: Áttum ekkert skilið úr þessum leik
Donni hundfúll með úrslit dagsinsvísir/ernir
Það var ekki jafn létt yfir Donna Sigurðssyni, þjálfara Þórs/KA, í leikslok.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Þetta var ekki góður leikur hjá okkur og við áttum sannarlega ekkert skilið úr honum. Stjörnuliðið gerði bara vel í því sem þær voru að gera. Þær voru bara betri,“ sagði Donni.

„Mér fannst okkar upplegg ekki ganga nógu vel upp. Við ætluðum að komast í ákveðin svæði og það gekk ekki nógu vel heilt yfir. Þunglamalegur sóknarleikur og ekki nógu góður varnarleikur.“

Donni vildi lítið ræða dómgæsluna og kvartaði ekki yfir tveimur atvikum sem stuðningsmenn Norðankvenna voru mjög ósáttir við.

„Það var bara rétt hjá dómaranum held ég. Hún dæmdi ekkert sérlega vel en þetta skiptir engu. Mér er skítsama. Við töpuðum og ég er ógeðslega svekktur, gráti nær raunar og það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessum atvikum,“ sagði Donni.

En hvernig er að fara inn í tæplega þriggja vikna frí með svona tap á bakinu?

„Það er algjörlega ömurlegt. Aftur á móti höfum við ýmislegt til að vinna í og reyna að bæta leik liðsins. Við förum fljótlega í törn þar sem við spilum við hin toppliðin og við þurfum augljóslega að skerpa á ýmsum hlutum fyrir það,“ sagði Donni að lokum.

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira