Fótbolti

Leikmenn Real kenna Bale um brotthvarf Zidane

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Samband Zidane og Bale er stirt þessa dagana
Samband Zidane og Bale er stirt þessa dagana vísir/getty
Leikmenn Real Madrid kenna liðsfélaga sínum Gareth Bale um brotthvarf Zinedine Zidane frá félaginu, en Frakkinn tilkynnti öllum að óvörum að hann ætlaði að hætta sem knattspyrnustjóri félagsins í gær.

Bale var hetja Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu síðasta laugardag þegar hann skoraði tvö mörk í 3-1 sigri Real á Liverpool, annað þeirra með glæsilegri bakfallsspyrnu.

Eftir leikinn íaði hann að því við fjölmiðla að hann vildi fara frá félaginu og kvartaði undan því að fá lítið að spila fyrir Real.

Spænski miðillinn Diario Gol segir frá því að leikmenn Real kenni Bale um að Zidane hafi ákveðið að hætta með félagið. Eigandi félagsins, Florentino Perez, er aðdáandi Bale og telja leikmennirnir að Zidane hafi fundist hann undir of mikilli pressu að spila Bale.

Zidane sagði á fréttamannafundi í gær að honum hafi fundist kominn tími til þess að stíga til hliðar.

Bale er eini leikmaðurinn í leikmannahópi Real Madrid sem sendi Zidane ekki kveðjur á samfélagsmiðlum eftir tilkynninguna.


Tengdar fréttir

Zidane hættur með Real

Zinedine Zidane er hættur sem stjóri Real Madrid en þetta var tilkynnt á fréttamannafundi rétt í þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×