Erlent

Ríkisstjórn Trump ætlar að skikka dreifiaðila til að kaupa kola- og kjarnorku

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump hefur stært sig af því að vera bjargvættur hnignandi kolaiðnaðar Bandaríkjanna.
Trump hefur stært sig af því að vera bjargvættur hnignandi kolaiðnaðar Bandaríkjanna. Vísir/Getty
Fulltrúar olíu-, vind- og sólarorkufyrirtækja mótmæla fyrirætlunum ríkisstjórnar Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að skikka dreifiaðila rafmagns til að kaupa orku frá kola- og kjarnorkuverum sem eru á hverfanda hveli.Washington Post segir að ríkisstjórnin búi sig nú undir að beita neyðarheimildum sem kveðið er á um í lögum frá kaldastríðsárunum til að þvinga fyrirtæki sem reka flutningskerfi rafmagns í Bandaríkjunum til að kaupa kola- og kjarnorku. Markmiðið ríkisstjórnarinnar er að koma í veg fyrir lokun orkuveranna sem hafa orðið undir í samkeppni við ódýrara jarðgas og endurnýjanlega orkugjafa á undanförnum árum.Þær kvaðir á dreifiaðila yrði rökstudd með þjóðaröryggissjónarmiðum líkt og verndartollarnir sem Trump-stjórnin lagði á helstu bandalagsþjóðir sínar í vikunni. Ríkisstjórnin fullyrðir að nauðsynlegt sé að alríkisstjórnin grípi inn í til að koma í veg fyrir að kola- og kjarnorkuverin verði tekin úr notkun. Neyðarreglurnar myndu gilda í tvö ár á meðan orkumálaráðuneyti ynni að skýrslu um raforkumarkaðinn.Aðgerðirnar eru sagðar í anda hugmynda sem eigendur kolafyrirtækja sem hafa veitt Trump og pólitískum hópum tengdum honum háar fjárhæðir í framlög undanfarin ár.

Kol verst fyrir loftslag jarðar

Framleiðendur jarðgass, olíu, sólar- og vindorku, umhverfisverndarhópar og stjórnmálamenn úr röðum bæði repúblikana og demókrata hafa andæft útspili Trump og félaga. Þeir benda á að kola- og kjarnorkufyrirtækin hafi einfaldlega orðið undir í samkeppninni og að mörg kolaorkuverin sem nú standi til að bjarga með ríkisinngrip hafi þegar starfað lengur en upphaflega var reiknað með.Kolaorka er helsta uppspretta gróðurhúsalofttegunda í orkuframleiðslu. Verði fyrirætlanir ríkisstjórnar Trump að veruleika er viðbúið að losun Bandaríkjanna á gróðurhúsalofttegundum sem valda hnattrænni hlýnun aukist frá því sem ella hefði orðið. Repúbikanar sökuðu Obama fyrrverandi forseta ítrekað um að heyja „stríð gegn kolum“ með tilraunum sínum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Trump hefur sagst hafa bundið enda á það meinta stríð.Raunverulega er það hins vegar tilkoma gríðarlegrar framleiðslu ódýrs jarðgass í Bandaríkjunum sem hefur komið mörgum kolaverum á heljarþröm, ekki reglur um samdrátt í losun orkuvera. Ríkisstjórn Trump hefur einnig reynt að afnema reglur sem settar voru í tíð Baracks Obama sem áttu að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá orkuframleiðslu. Í gær lagði Umhverfisstofnun landsins einnig fram tillögu að reglum sem myndu draga úr kröfum um útblástur fólksbíla frá því sem áður hafði verið ákveðið.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.