Innlent

Hugmyndir um Hvassahraun tefji ekki fyrir uppbyggingu Keflavíkurflugvallar

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Samgönguráðherra segir hugmyndir um flugvöll í Hvassahrauni ekki mega tefja fyrir uppbyggingu flugvallarins í Keflavík. Búist er við að tengifarþegum fjölgi verulega í Keflavík á þessu ári. 

Isavia kynnti í síðustu viku uppbyggingaráætlun Keflavíkurflugvallar sem ætlar er að meta uppbyggingarþörf til skemmri tíma, byggt á nýjustu farþega- og flughreyfingaspám.

Uppbyggingaráætlun tekur mið af 25 ára þróunaráætlun en er aðlöguð að þörfum á næstu 7-10 árum. Kosnaður við uppbygginguna er metin á bilinu 120-150 milljarðar. Þrátt fyrir þessa áætlun hafa hugmyndir um nýjan millilandaflugvöll í Hvassahrauni ekki verið slegnar út af borðinu.

Þurfa stjórnvöld ekki að fara að koma með niðurstöðu hvar þau ætla að vera með framtíðarflugvöll á Íslandi?

„Það er alveg augljóst að það sem við höfum verið að taka til skoðunar núna á síðustu misserum um framtíð Reyljavíkurflugvallar, innanlandsflugsins og þær hugmyndir sem hafa komið upp með Hvassahraun að þær þarfa að leiða til lykta,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.

Stórar ef-spurningar

Ekki megi tefja fyrir uppbyggingu í Keflavík þar sem þörfin fyrir innviðauppbyggingu sé mikil þrátt fyrir spá um að verulega dragi úr fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands í ár. Tengifarþegum muni þó fjölga umtalsvert og mun farþegafjöldin í ár ná þeirri tölu sem spáð var fyrir árið 2030. Sigurður Ingi segir að ef það muni taka langan tíma verði hugsanlega tekin önnur ákvörðun um framtíðar alþjóðaflugvöll á Íslandi.

„Þetta eru allt saman mjög stórar „Ef-spurningar. Þetta er risastór ákvörðun ef hún yrði tekin og við erum engan vegin komin þangað. Það er verið að bera saman kosti og það mun taka einhvern tíma,“ segir Sigurður Ingi um mögulega uppbyggingu í Hvassahrauni.

Samgönguráðherra hefur ekki áhyggjur af offjárfestingu í Keflavík á næstu áru ef stjórnvöld tækju ákvörðun um að byggja nýjan flugvöll.

„Í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um þetta mál var sýnt fram á að það væri umtalsverður þjóðhagslegur ávinningur ef sá kostur yrði valinn en ég endurtek að þetta er mjög stórt ef og það hefur engin niðurstaða komið í þetta mál þannig að það bíður ekki neinnar ákvörðunar. Málið er einfaldlega til skoðunar og í vinnslu.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


×