Enski boltinn

Lyon: Fréttir af kaupum Liverpool á Fekir eru falskar fréttir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nabil Fekir skoraði fyrir franska landsliðið í undirbúningsleik á dögunum. Hér fagnar hann marki sínu með Blaise Matuidi.
Nabil Fekir skoraði fyrir franska landsliðið í undirbúningsleik á dögunum. Hér fagnar hann marki sínu með Blaise Matuidi. Vísir/Getty

Franski landsliðsframherjinn Nabil Fekir var sagður á leiðinni til Liverpool í flestum enskum fjölmiðlum í gærkvöldi en nú virðist vera komið eitthvað babb í bátinn.

Nabil Fekir er ennþá leikmaður Lyon og franska félagið hefur nú tilkynnt það á Twitter að ekkert sé til í þeim fréttum að Liverpool sé að ganga frá kaupum á leikmanninum.  

Fjölmiðlar eins og bæði Guardian og BBC sögðu frá því í gær að Liverpool myndi kaupa Nabil Fekir á 52 milljónir punda og leikmaðurinn átti að vera á leiðinni í læknisskoðun í dag.

Liverpool væri staðráðið í að ganga frá kaupunum fyrir HM en Nabil Fekir mun spila með franska landsliðinu á HM í Rússlandi. Leikmaðurinn sjálfur er sagður vera mjög spenntur að spila fyrir Liverpool.

Nabil Fekir virðist hinsvegar vera talsvert frá því að komast á Anfield ef marka má nýjast útspil félagsins hans.

Tilkynningu Lyon má sjá hér fyrir neðan.„Olympique Lyon neitar því að eitthvað sé til í fölskum fréttum sem voru í mörgum fjölmiðlum um félagsskipti Nabil Fekir til Liverpool.“

Nabil Fekir átti frábært tímabil með Lyon en hann skoraði 18 mörk og gaf 8 stoðsendingar í frönsku deildinni.

Liverpool er þegar búið að ganga frá kaupum á miðjumönnunum Fabinho og Naby Keita en það gæti orðið mun erfiðara fyrir félagið að ganga frá kaupunum á Nabil Fekir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.